Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Víkur úr Hvíta húsinu en viðurkennir varla ósigur

President Donald Trump participates in a video teleconference call with members of the military on Thanksgiving, Thursday, Nov. 26, 2020, at the White House in Washington. (AP Photo/Patrick Semansky)
 Mynd: AP
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, sagðist í kvöld munu víkja úr embætti og yfirgefa Hvíta húsið á tilsettum tíma, fari svo að meirihluti kjörmanna greiði Biden atkvæði sitt þegar þeir koma saman hinn 14. desember. Þar með sé þó ekki sagt að hann muni nokkru sinni viðurkenna ósigur, þar sem brögð hafi verið í tafli.

Stórfellt kosningasvindl og kosningakerfi eins og í þriðjaheimsríki

Trump sat fyrir svörum á fréttamannafundi í kvöld, í fyrsta sinn frá kosningunum 3. nóvember. Aðspurður hvort hann ætli að yfirgefa Hvíta húsið ef kjörmenn kjósa Biden í forsetaembættið sagðist hann „að sjálfsögðu" munu gera það, „og þið vitið það" sagði forsetinn. En, bætti hann við, „ef þeir gera það, þá gera þeir mistök, og það verður mjög erfitt að játa ósigur.“

„Þetta var stórfellt kosningasvindl," sagði Trump, sem færði þó hvorki rök né sannanir fyrir þeirri fullyrðingu sinni, en sagði innviði bandaríska kosningakerfisins „eins og í þriðjaheimsríki."

Joe Biden, verðandi Bandaríkjaforseti, sagði í gær að bandaríska þjóðin myndi „ekki líða" tilraunir til að ónýta úrslit kosninganna. Biden fékk ríflega 6 milljónum fleiri atkvæði en Trump á landsvísu og 306 kjörmenn á móti 232 kjörmönnum Trumps.