Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Þurfum að hugsa jólaundirbúninginn upp á nýtt“

27.11.2020 - 16:55
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Við þurfum að hugsa jólaundirbúninginn okkar upp á nýtt, segir Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir tekur undir þetta og segir öllu máli skipta að forðast hópamyndun, sama hvert tilefnið sé, á meðan faraldurinn er í gangi.

„Þetta ár er auðvitað búið að vera öðruvísi heldur en áður. Þjóðhátíðin slegin af, páskunum eiginlega frestað og svo framvegis,“ segir Rögnvaldur.

Hann segir að hugsa þurfi jólaundirbúninginn og aðventuna upp á nýtt. „Þessir hefðbundnu hittingar með fjölskyldu og vinum - að reyna að setja þá til hliðar. Á meðan það er  veira þarna úti og í gangi þá finnur hún sér leið. Hún er svo lúmsk að hún er mjög fljót að ná fótfestu þegar fólk er að hittast.
Ef það verða álíka hittingar planaðir um þessa helgi eins og  var síðustu helgi þá er þetta að fara að halda áfram,“ segir Rögnvaldur.

Þórólfur segir erfitt að segja til um hvernig sóttvarnaráðstöfunum verði háttað yfir hátíðarnar, staðan breytist fljótt.  „Ég held að við verðum að sjá hvað gerist, núna erum við að hugsa í næstu dögum frekar en næstu vikum,“ segir Þórólfur.

Hann segir að allar hópamyndanir séu greinilega áhættuþáttur í þessu. „Þetta er tími þar sem fólk er að hittast mikið, sérstaklega fjölskyldumeðlimir og við verðum bara að biðla til fólks um að fara mjög varlega,“ segir Þórólfur.