Thor Aspelund líftölfræðingur sagði í Morgunblaðinu í morgun að fjölgun smita undanfarna daga gæfi ástæðu til að endurmeta hvort að staðpróf séu skynsamleg hjá Háskóla Íslands. Jón Atli segir að það sé ekki engin breyting í uppsiglingu varðandi staðpróf. Þeim hafi hins vegar verið fækkað mikið undanfarin misseri, ekki síst á heilbrigðissviði þar sem flest staðpróf fara fram.
„Það sem við gerum er að við fylgjum þeim reglum sem eru í gildi hverju sinni. Samkvæmt þeirri reglugerð sem unnið er með eru próf í háskóla heimil með tilteknum skilyrðum, og við höfum útfært það. Um leið og stjórnvöld breyta sínum ákvörðunum og setja nýjar reglur þá förum við eftir því.“ segir Jón Atli.
Hann segir að vandlega hafi verið farið yfir fyrirkomulag prófa fyrir þessi jól innan skólans. Yfir allt misserið hafi staðpróf farið fram með góðum árangri. Áhersla sé lögð á smitvarnir og fjarlægðir á milli nemenda.
Nemendur hafa áhyggjur
Hann segir að mismunandi sjónarmið séu meðal nemenda um ágæti þess að þurfa að koma í skólann til að þreyja próf á staðnum.
„Við höfum vissulega heyrt að nemendur hafi áhyggjur. Og það er eðlilegt. Stúdentaráð gerði könnun meðal nemenda fyrir nokkru og þar kom fram að þeir hafi áhyggjur. Svo eru aðrir nemendur sem vilja frekar taka próf í stofum. Heimapróf eru öðruvísi en hefðbundin stofupróf. Það eru ýmis sjónarmið hvað þetta vaðar.“
Hann segir að prófum hafi verið fækkað verulega á mörgum sviðum, eins og til að mynda á heilbrigðisvísindasviði. Þar séu nú aðeins um fjórðungur prófa sem taka þarf á staðnum. Á öðrum sviðum segir hann að staðpróf heyri nánast sögunni til.
Lærum heilmikið af faraldrinum
Jón segir að áfram verði mikilvægt fyrir alla innan háskólasamfélagsins að koma saman og deila þekkingu sinni innan sömu veggja þó að rafræn kennsla hafi reynst vel í faraldrinum. Hugsanlegt sé að námsmat taki breytingum að faraldrinum loknum.
Viðtal við Jón Atla Benediktsson rektor HÍ má sjá hér að ofan.