Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Ríkir almannahagsmunir og óumdeilanlegir“

27.11.2020 - 15:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dómsmálaráðherra segir ljóst að ríkir almannahagsmunir séu til staðar fyrir því að stöðva kjaradeilu flugvirkja og Landhelgisgæslunnar. Tryggja verði þá hagsmuni sem séu í húfi og séu óumdeilanlegir. Kostnaður ríkissjóðs við gerðardóm í deilunni nemur 15 til 20 milljónum. Hann á að hafa lokið störfum fyrir 17. febrúar hafi samningar ekki náðst.

Þetta kemur fram í greinargerð frumvarps dómsmálaráðherra þar sem lagt er til að lög verði sett á verkfall flugvirkja. 

Ráðherra segir að gerðardómur þurfi að taka afstöðu til þess hvort nýr kjarasamningur flugvirkja skuli miða við aðstæður og vinnufyrirkomulag hjá Landhelgisgæslunni eða eigi að taka sjálfkrafa mið af kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Icelandair við Flugvirkjafélag Íslands. Í greinargerðinni kemur fram að deiluaðilar fái tíma til  4. janúar til að ná samningum. Takist þeim það ekki á Hæstiréttur að tilnefna þrjá í gerðardóm sem hefur til 17. febrúar að ákveða kaup og kjör.  

Ráðherra segir ótækt að vinnudeilan haldi áfram að stefna almannahagsmunum í voða. Stjórnvöldum hafi verið nauðugur sá kostur að grípa inn í. Flugvirkjafélagið hafi nýtt rétt sinn til verkfallsaðgerða en það hafi staðið frá 6. nóvember.

Þá bendir ráðherra á að öryggi sjófarenda sé stefnt í voða. Þegar neyð steðji að úti á hafi sé þyrla oft og tíðum eina leiðin til að bjarga áhöfn og farþegum skipa ef engar aðrar bjargir eru nærstaddar.  „Þyrlurnar eru nýttar til margvíslegra annarra björgunar-og leitarstarfa þar sem hver mínúta getur skipt máli upp á mörkin milli lífs og dauða.“ Ríkir almannahagsmunir standi því til þess að starfsemi flugdeildar Landhelgisgæslunnar komist í eðlilegt horf án tafar.

Ráðherra segir að Landhelgisgæslan hafi þrátt fyrir verkfall reynt að tryggja lágmarks neyðarþjónustu og gert allt til að halda TF-GRO í flughæfu ástandi. Verkefnum og æfingum hafi verið frestað til að hægt væri að bregðast við neyðartilfellum „en ljóst er að slíkt ástand getur ekki varað lengi.“