Miður falleg ummæli hrundu í hundraðavís inn á Instagram-síðu dönsku stórstjörnunnar eftir að tilkynnt var að hann tæki við hlutverki illmennisins Grindelwalds í þriðju Fantastic Beasts kvikmyndinni. Danska dagblaðið Politiken greinir frá þessu.
Johnny Depp var gert að segja sig frá hlutverkinu eftir að meiðyrðamáli hans gegn breska götublaðinu The Sun var vísað frá. Depp krafðist skaðabóta vegna fullyrðinga blaðsins um að hann hefði beitt fyrrverandi konu sína, Amber Heard, ofbeldi.
Vonsviknir aðdáendur Depps hafa einnig gripið til vopna á Twitter og kalla margir hverjir eftir því að myndin verði sniðgengin og vara Mikkelsen við því að taka við hlutverkinu. „Ég kann vel við þig sem leikara, en þú ættir að styðja Johnny Depp en ekki þessa kvikmynd,“ segir einn. „Þú ert þvílíkur fábjáni, að taka við hlutverki einhvers sem hefur verið ranglega sakaður um ofbeldi meðan það var hann sjálfur sem varð fyrir ofbeldi,“ segir annar og: „Ég vara þig við: haltu þig fjarri Warner Bros.“