
Lögreglumenn í París settir af fyrir ofbeldi og rasisma
Kyndir undir ólgu vegna rasisma innan lögreglunnar
Barsmíðarnar áttu sér stað á laugardagskvöld og birting upptökunnar í gær eykur enn á reiði í garð lögreglu, sem sökuð var um að beita óhóflegu valdi og ofbeldi þegar hún reif niður og rýmdi sjálfsprottnar flóttamannabúðir í borginni á mánudag. Þolendur lögregluofbeldisins voru í báðum tilvikum svartir.
Fótboltastjarnan Kylian Mbappe, sem einnig er blökkumaður, fordæmdi árásina á Michel og fékk félaga sína í franska landsliðinu til liðs við sig í þeirri fordæmingu. „Óbærilegt myndskeið, óbærilegt ofbeldi. Segið nei við rasisma,“ skrifaði hann á Twitter undir mynd af blóðugu andliti upptökustjórans Michel. Sá hefur greint frá því að lögreglumennirnir hafi ausið yfir hann kynþáttaníði á meðan þeir misþyrmdu honum.
Kærum gegn Michel vísað frá en lögreglumennirnir kærðir í staðinn
Michel var handtekinn og kærður fyrir ofbeldi og mótspyrnu við handtöku. Saksóknarar vísuðu kærunum frá og hófu þess í stað rannsókn á hendur lögreglumönnunum þremur. Þessi nýjustu ofbeldisverk Parísarlögreglunnar torvelda enn afar umdeild áform stjórnvalda um að banna birtingu myndskeiða þar sem andlit lögreglumanna eru sjáanleg.