Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Lög sett á verkfall flugvirkja

27.11.2020 - 11:13
Mynd: RÚV / RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra tilkynnti það rétt í þessu að ríkisstjórnin hafi ákveðið að setja lög á verkfallsaðgerðir flugvirkja. Einhugur er um málið innan ríkisstjórnarinnar.

Flugvirkjar Landhelgisgæslunnar hafa verið í verkfalli frá 5. nóvember. Samninganefndir flugvirkja og ríkisins funduðu hjá ríkissáttasemjara í gær en sá fundur skilaði ekki árangri. 

Ríkisstjórnin ræddi málið á fundi sínum í morgun og var ákveðið að setja lög á verkfallið. 

„Það voru vonbrigði að það var ekki samið í gær, en þessi kjaradeila hún varðar almannaöryggi og þessi starfsemi Landhelgisgæslunnar verður að komast í eðlilegt horf án tafar,“ sagði Áslaug

Boðað hefur verið til þingfundar klukkan 14 í dag. Hún vonast til að málið verði afgreitt hratt svo að þyrlur komist í gagnið sem fyrst. Lögin taka gildi í dag.

„Það er alveg ljóst að staðan er  grafalvarleg hjá Landhelgisgæslunni og þess vegna verðum við að grípa inn í, þetta var ekki okkar fyrsta val að setja lög á þetta verkfall en það er staðan og við verðum að koma þessarri starfsemi í gang enda varðar hún almannaöryggi og ekki síst sjófarenda,“ segir Áslaug Arna.

 

Flugvirkjar höfnuðu í gær sáttatillögu ríkissáttasemjara. Í henni fólst að núverandi samningur flugvirkja yrði framlengdur og þar með sú tenging sem þeir hafa haft við samning flugvirkja við Icelandair.  Þeir fengju sömu hækkun og þar er kveðið á um auk sérstakrar eingreiðslu. Gildistíminn yrði til loka næsta árs.  

Flugvirkjar hafa viljað tengja kjarasamninginn við aðalkjarasamning flugvirkjafélagsins við Icelandair. Þeir vildu semja til þriggja ára en ekki eins árs eins og tillaga sáttasemjara miðaði við. Allir björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar eru óstarfhæfar þar sem ekki hefur verið hægt að sinna viðhaldi. Til stóð að ljúka viðhaldsvinnu á þyrlunni TF-GRÓ í dag. Flugvirkjar hafa hafnað fjórum undanþágubeiðnum frá Landhelgisgæslunni og því verða frekari tafir á að hún komist í gagnið. 

 

Fréttin hefur verið uppfærð.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV