Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Landsréttur mildar dóm fyrir mótmæli í flugvél

27.11.2020 - 16:22
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Landsréttur mildaði í dag dóm yfir tveimur íslenskum konum sem voru ákærðar fyrir að mótmæla brottvísun nígeríska hælisleitandans Eze Okafor um borð í vél Icelandair fyrir fjórum árum. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi þær í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi en Landsréttur ákvað að fresta ákvörðun um refsingu haldi þær skilorð næstu tvö árin.

Vélin var á leið til Svíþjóðar. Konurnar voru sagðar hafa staðið upp, hrópað og kallað yfir farþega og starfsmenn að verið væri að flytja Okafor ólöglega úr landi. 

Þær voru sagðar hafa hvatt aðra farþega til að standa upp og óhlýðnast starfsmönnum vélarinnar í því skyni að tefja flugtakið og koma því til leiðar að Okafor yrðu færður frá borði.  Með þessu hátterni voru þær taldar hafa reynt að tálma lögreglumenn við skyldustörf, raskað öryggi flugvélarinnar og óhlýðnast fyrirmælum áhafnarinnar.

Konurnar voru færðar með valdi út úr flugvélinni.

Landsréttur segir að horfa verði til þess að fyrir konunum hafi vakað að standa vörð um líf og frelsi Okafor sem þær hafi álitið í hættu. Það hafi þær gert með því að nýta á friðsaman hátt stjórnarskrárvarinn rétt sinn til mótmæla þótt þær hafi í þessu tilviki gengið lengra en heimilt var. 

Landsréttur bendir einnig á að þær hafi ekki áður hlotið refsingu og að verulegur dráttur hafi orðið á málinu. Ákæra í því var ekki gefin út fyrr en tæplega tveimur og hálfu ári eftir mótmælin og nærri fimm ár eru síðan þau áttu sér stað. Þá hefði því verið hafnað að heimfæra háttsemi þeirra undir ákvæði í ákæru sem varðaði þyngstu refsingu. Var það því niðurstaða dómsins að fresta ákvörðun refsingar skilorðsbundið í tvö ár.