Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Landspítalinn dregur úr kolefnislosun um 40%

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landspítalinn fékk í morgun loftslagsviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar fyrir að draga úr kolefnislosun um 40% frá árinu 2016. Borgarstjórinn í Reykjavík segir að bregðast verði við samdrætti með því að fjárfesta í grænum verkefnum. Loftslagsmálin hafi fallið í skuggann af kórónuveirufaraldrinum á þessu ári.

Ár­leg­ur Lofts­lags­fund­ur Festu og Reykja­vík­ur­borg­ar fór fram í morgun. Um þessar mundir eru fimm ár frá því að þjóðir heims undirrituðu Parísarsamkomulagið og í kjölfar þess und­ir­rit­uðu rúm­lega 100 ís­lensk fyr­ir­tæki og stofn­an­ir lofts­lags­yf­ir­lýs­ingu Festu og Reykja­vík­ur­borg­ar og tóku með því skref til að leggja sitt af mörk­um varðandi fram­gang Par­ís­arsátt­mál­ans. Á fundinum í morgun var farið yfir hvernig gengið hefði undanfarin fimm ár. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, segir að atvinnulífið og fyrirtækin hafi staðið sig vel. 

„En nú viljum við líka slá í klárinn því að stóra loftslagsráðstefnan sem átti að vera í ár en var frestað fram á næsta ár, hún átti að fókusera á aðgerðir, að tryggja að næsti áratugur yrði áratugur aðgerða,“ segir Dagur. „Og ég vonast til þess að fyrirtækin og atvinnulífið komi með okkur í þetta, vegna þess að við þurfum öll að standa okkar vakt til þess að markmiðið náist.“

Er eitthvað sem þú hefðir viljað sjá ganga betur?

„Ég bjóst satt best að segja við því í upphafi þessa árs að loftslagsmálin yrðu stóra málið á þessu ári. Þau hafa sannarlega fallið í skuggann af kórónuveirufaraldrinum, eins og kannski eðlilegt er. Núna þegar við erum að bregðast við efnahagssamdrætti og atvinnuleysi held ég að stóra málið núna sé að sveitarfélög, ríki ekki síður, en líka fyrirtækin, beiti réttum viðbrögðum við samdrætti með því að fara í fjárfestingu, en beini henni í græna átt, í græn verkefni, í loftslagsinnviði og annað sem skilar okkur hraðar inn í græna framtíð.“

Skýr markmið

Á fundinum í morgun fékk fyrirtækið Carbfix sérstök nýsköpunarverðlaun. Loftslagsviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar hlaut hins vegar Landspítalinn.

„Sem setti sér það metnaðarfulla markmið árið 2016, í kjölfar þess að vera aðili að yfirlýsingunni, að minnka kolefnislosun um 40% fyrir 2020, og er að ná því. Landspítalinn er að sýna hvað er hægt að gera ef það eru sett skýr markmið og aðgerðir fylgja orðum,“ segir Dagur.

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars:

„Eitt meginmarkmið Landspítala var að draga úr losun um 40% fyrir árslok 2020 miðað við losun ársins 2015. Aðgerðir Landspítala hafa sýnt árangur en á milli 2018 og 2019 var samdráttur í losun rúm 17%. Tölur þessa árs boða gott og spár sýna að markmið þeirra um 40% samdrátt í losun fyrir lok ársins 2020 muni nást. Meðal aðgerða sem stuðla að þessum góða árangri er uppsetning á búnaði til að eyða glaðlofti, auk þess sem hætt var að nota olíuketil til orkuframleiðslu fyrir ýmsan búnað en rafmagn er notað í staðinn. Þessar tvær aðgerðir einar og sér munu minnka losun CO2 ígilda spítalans sem svarar til rúmum 1000 tonnum á hverju ári.“