Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Klárar vísbendingar um veldisvöxt“

27.11.2020 - 11:29
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
„Það eru klárar vísbendingar um veldisvöxt í tölunum hjá okkur síðustu daga og við höfum áhyggjur af því hvert þetta stefnir,“ segir Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við fréttastofu. Alls greindust 20 kórónuveirusmit innanlands í gær og 11 þeirra sem greindust voru ekki í sóttkví.

Hann segir að það hafi gengið ágætlega að rekja smitin en þó séu dæmi um að uppruni smita finnist ekki. „Það er áhyggjuefni og vísbending um að veiran sé ennþá úti í samfélaginu og fólk þarf að passa sig sérstaklega vel, “ segir hann. 

Það sé mikið áhyggjuefni að þróunin sé á þessa leið þrátt fyrir þær takmarkanir sem hafa verið í gildi. „Og það er ekki einu sinni kominn desember.“ 

Afleiðingar helgarinnar að koma í ljós

Rögnvaldur segir að smitin megi mörg rekja til þess að fólk hafi hitt vini og ættingja um helgina. Almannavarnir hafi miklar áhyggjur af því að fólk sé að missa dampinn og telji sér trú um að þetta sé að verða búið.

„Maður skilur það, þetta er mjög mannlegt að fólk vilji sjá það jákvæða,“ segir hann. Nú þurfi að hugsa jólaundirbúninginn upp á nýtt og setja samkomur allar til hliðar. 

Klasasýkingar eftir samkomur

Hann minnir á að það sé ekki bara í veislum sem smit berst á milli heldur alveg eins í minni hittingum vina og ættingja. Nú ríði á að fólk forðist alla hópamyndun, hvort sem það er í heimahúsi eða annars staðar. 

Smitin megi rekja til klasa, þótt ekki séu vísbendingar um stóra hópsýkingu.

„Á meðan það er veira þarna úti þá finnur hún sér leið og hún er fljót að ná fótfestu þegar fólk er að hittast. Ef það eru álíka hittingar á dagskrá þessa helgi og þá síðustu, þá er þetta að fara að halda áfram, það er bara þannig,“ segir Rögnvaldur. Aftur hafi verið bætt í mönnun í rakningarteymi vegna stöðunnar.