Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kaupum oft það sem vantar ekki

27.11.2020 - 14:28
Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir / Þórgunnur Oddsdóttir
Stefán Gíslason flutti umhverfispistil í Samfélaginu á Rás 1 og fjallaði um svartan föstudag og bendir á að oft séu kaupin ekki nauðsynleg og tilboðin ekki góð - og dýru verði keypt.

 

Ekki endilega ódýrara að kaupa á svörtum föstudegi

Nú er haldið upp á svartan föstudag í Bandaríkjunum, eða „Black Friday“ eins og dagurinn er kallaður þar um slóðir. Það er nefnilega löngu orðin hefð vestanhafs að hleypa jólaversluninni af stað fyrir alvöru á fjórða föstudegi nóvembermánaðar, nánar tiltekið daginn eftir Þakkargjörðarhátíðina. Þennan dag þyrpist fólk í verslanir og birgir sig upp af varningi, enda eru verslunareigendur duglegir að minna fólk á það dagana á undan, að þennan eina dag bjóðist kjör sem eigi nánast engan sinn líka. Nýlegar rannsóknir benda þó til að staðhæfingar um að bestu kjörin bjóðist þennan tiltekna dag séu í besta falli ónákvæmar og í versta falli lygi.

Í frétt á RÚV-vefnum fyrr í þessari viku var sagt frá könnun bresku neytendasamtakanna Which, þar sem fylgst var með vöruverði á 219 völdum vörum sem auglýstar voru sem tilboðsvörur á svörtum föstudegi í fyrra. Í þessari könnun kom í ljós að aðeins 1% tilboðsvaranna var í raun á lægsta verðinu þennan tiltekna svarta föstudag borið saman við næstu sex mánaða á undan.

Í frétt BBC um þessa sömu könnun var vísað í tiltekin dæmi um verðlagninguna á svörtum föstudegi. Þannig sýndi könnun Which að hjá John Lewis var hægt að kaupa 70 vörur af 78 á lægra verði mánuðina á undan en því sem bauðst á svörtum föstudegi. Annað dæmi var um De'Longhi kaffivél (með venjulegum fyrirvara um framburð) sem kostaði 1.285 sterlingspund á svörtum föstudegi en hafði kostað það sama eða minna í 35 skipti mánuðina á undan, og hafði m.a. farið nokkrum sinnum undir 1.200 pund í maí og júní. Jafnvel á Amazon, sem kom þó best út í könnuninni, voru 57% af öllum þeim vörum sem kannaðar voru ódýrari aðra daga en á svörtum föstudegi. Ein helsta ályktunin sem Which dró af könnuninni var að ef eitthvað væri of gott til að vera satt, þá væri það yfirleitt of gott til að vera satt, já, eða þá væri það með öðrum orðum líklega ekki satt. Svo er líka gott að hafa í huga að jafnvel þótt maður geti sparað 40% með því að kaupa einhvern hlut einmitt núna, þá hefur maður alltaf þann valkost að spara 100% með því að kaupa hann ekki. Hlýtur ekki 100% afsláttur að vera betri en 40%?

Tilgangslaus aukakaup

Hvort sem tilboðin sem bjóðast á svörtum föstudegi eru í alvöru betri en aðra daga, þá hefur dagurinn sínar skuggahliðar. Ein skuggahliðin er sú að jafnvel þótt einhver einn hlutur sé keyptur á feykigóðum afslætti vilja gjarnan aðrir mun óhagstæðari slæðast með, „fyrst maður er nú byrjaður að versla á annað borð“, eins og það er stundum orðað. Þessi aukakaup eru bæði slæm fyrir umhverfið og pyngjuna. Vestanhafs þykjast menn líka hafa séð þess dæmi að hluti af þeim vörum sem seldar eru þennan dag séu framleiddar sérstaklega til þess arna og hafi sloppið við eitthvað af því gæðaeftirliti sem gildir fyrir sams konar vöru almennt.

Hvernig sem á allt er litið er auðvitað bara fínt að kaupa það sem mann vantar þegar það er sem ódýrast. En tilfellið er að fólk notar svartan föstudag ekkert endilega til að kaupa það sem það vantar, heldur það sem vantar ekki. Ef maður spyr fólk hvort það hafi farið í búðir þennan dag til að kaupa eitthvað sem það vantaði og var búið að ákveða að kaupa, þá er líklegt að svarið sé já. Rannsóknir benda hins vegar til að stór hluti innkaupanna á þessum degi séu nánast gerður af handahófi en ekki að yfirlögðu ráði. Þetta endurspeglast m.a. í nýrri rannsókn Hagfræðideildar Háskólans í Lundi í Svíþjóð, þar sem í ljós kom að næstum helmingur þeirra, nánar tiltekið 48%, sem kaupir eitthvað á svörtum föstudegi er ekki búinn að skipuleggja innkaupin og lætur þess í stað auglýsingar um tilboð dagsins ráða för. Hvati innkaupanna í þeim tilvikum er þá í raun ekki að gera góð kaup á einhverju sem viðkomandi vantar, heldur að kaupa eitthvað sem viðkomandi hefur frétt að sé ódýrt, hvort sem hann vantar hlutinn eður ei. Margir halda líka að fólk noti svartan föstudag fyrir hagkvæm innkaup á jólagjöfum, en sú er heldur ekki raunin nema í minnihluta tilvika. Í sænsku rannsókninni sem hér er sagt frá reyndust sem sagt bara 19% kvenna og 4% karla skipuleggja innkaup á jólagjöfum þennan dag.

Margir svartir föstudagar árið 2020

Þetta árið verður svartur föstudagur líklega talsvert frábrugðinn svörtum föstudögum síðustu ára, bæði hérlendis og erlendis. Það verður nefnilega lítill handagangur í öskjunni í verslunum sem ætla að gera góða sölu þennan dag, ef ekki má leyfa nema 10 kaupþyrstum einstaklingum að vera inni í búðinni á sama tíma. Þess vegna er líklegt að verslunarumsvif dagsins færist að miklu leyti úr búðunum á netið. Reyndar er þetta ekki bara líklegt, heldur líka nauðsynlegt með tilliti til smitvarna. Í Stokkhólmi standa yfirvöld t.a.m. að sérstakri auglýsingaherferð í tilefni dagsins, þar sem fólk er minnt á að á þessu ári höfum við þegar upplifað nógu marga svarta föstudaga. Núna liggja 750 sjúklingar með Covid-19 á sjúkrahúsum á Stokkhólmssvæðinu, þar af 60 á gjörgæsludeildum. Í auglýsingum yfirvalda á svæðinu er fólk minnt á að það getur jafnvel bjargað mannslífum með því að þyrpast ekki í verslanir á morgun.

Einstaka fyrirtæki hafa ákveðið að nota svartan föstudag ekki til að selja sem mest af varningi á lækkuðu eða ekki lækkuðu verði, en leggja þess í stað áherslu á samfélagsleg verkefni. Í auglýsingum Body Shop í Svíþjóð má t.d. finna þennan texta: „Engan svartan föstudag. Ef þú ætlar að kaupa eitthvað, kauptu þá snjóhnöttinn í Body Shop“. Þessi snjóhnöttur lítur út eins og hvert annað jólaskraut, en af verði hvers hnattar renna 50 sænskar krónur, eða tæplega 800 íslenskar krónur, til samtakanna Unga relationer sem vinnur gegn kynbundnu ofbeldi í samböndum ungs fólks. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að 23% sænskra stúlkna á aldrinum 16-24 ára hafa orðið fyrir kynbundnu ofbeldi í nánum samböndum. Síðastliðinn mánudagur var einmitt alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gegn konum og þann dag hófst sextán daga heimsátak gegn kynbundnu ofbeldi. Ofbeldi af þessu tagi hefur farið mjög í vöxt á Covid-tímanum og margar konur hafa upplifað marga svarta föstudaga það sem af er árinu.

 

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður