Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Dómur fyrir tvær nauðganir skilorðsbundinn vegna tafa

27.11.2020 - 16:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landsréttur ákvað í dag að skilborðsbinda refsingu yfir karlmanni sem var sakfelldur fyrir að hafa tvívegis nauðgað fyrrverandi unnustu sinni. Þótt brotið væri talið alvarlegt taldi dómurinn að það mikla tafir hefðu orðið á málsmeðferðinni að fresta ætti að öllu leyti fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið. Honum var gert að greiða fyrrverandi unnustu sinni 1,2 milljónir í miskabætur.

Manninum var gefið að sök að hafa í tvígang haft samræði við fyrrverandi unnustu sína án hennar samþykkis og vilja með því að beita hana ólögmætri nauðung. Ofbeldið átti sér stað aðfaranótt og að morgni sunnudags í janúar 2015.

Maðurinn hlaut  átján mánaða fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjaness sem taldi ekki hægt að binda refsinguna skilorði þótt það hefðu orðið tafir á málinu. Landsréttur er þessu ósammála og rekur það nokkuð nákvæmlega hversu langan tíma það tók.

Í dómnum kemur fram að konan hafi lagt fram kæru á hendur manninum hjá lögreglu nokkrum dögum eftir atvikið. 

Rannsókn málsins lauk átta mánuðum seinna en þrátt fyrir það var það ekki sent héraðssaksóknara fyrir en ári seinna. Rúmlega ári síðar eða í október 2017 sendi héraðssaksóknari málið aftur til rannsóknar hjá lögreglu og fékk það aftur einum og hálfum mánuði seinna . Eftir nokkra yfirlegu var það niðurstaða embættisins í febrúar 2018 að fella það niður niður. 

Konan kærði þá ákvörðun til ríkissaksóknara sem felldi ákvörðun héraðssaksóknara úr gildi og lagði fyrir embættið að gefa út ákæru þar sem maðurinn yrði ákærður fyrir að hafa í tvígang þvingað konuna til samræðis.  Rúmlega fjórum árum eftir að konan hafði kært manninn féll loks dómur í héraðsdómi. 

Honum var áfrýjað til Landsréttar og bárust dómsgerðir frá héraðsdómi rúmum níu mánuðum eftir að ríkissaksóknari hafði óskað eftir þeim.  

Málsgögnum var síðan skilað til Landsréttar fjórum mánuðum seinna og frestur til að skila greinargerðum rann út í maí á þessu ári.  „Ákærða verður með engum hætti kennt um þennan drátt á málsmeðferðinni,“ segir Landsréttur sem telur þessar tafir í andstöðu við meginreglur sakamálaréttarfars, stjórnarskrána og mannréttindasáttmála Evrópu. „Við ákvörðun refsingar verður ekki fram hjá því litið að málið hefur dregist úr hömlu.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV