Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ungt fólk „fast í foreldrahúsum“

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Kórónuveirufaraldurinn hefur haft jákvæð áhrif á flesta á leigumarkaði, framboð af leiguhúsnæði hefur aukist og leiguverð lækkað, auk þess sem fleiri sjá fram á að geta keypt eigið húsnæði vegna batnandi vaxtakjara. Yngsti hópurinn á leigumarkaði, 18-24 ára, hefur þó farið illa útúr kreppunni og hlutfall í þeim aldurshópi sem býr í foreldrahúsum hefur hækkað úr 40 prósentum í 70 prósent á árinu.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þar segir að atvinnuleysi ungs fólks hafi rúmlega tvöfaldast síðastliðið ár, ekki síst vegna samdráttar í ferðaþjónustu og flestum þjónustugreinum þar sem margt ungt fólk starfar. Því séu sterkar vísbendingar um að faraldurinn komi einna verst niður á ungu fólki. Það sé „fast í foreldrahúsum“ og leiti hvorki inn á leigumarkað né í eigið húsnæði um þessar mundir. 

Þar er einnig fjallað um að leigjendum sé að fækka hér á landi. Aðstæður til húsnæðiskaupa hafi aldrei verið hagstæðari en nú og leigjendur kaupi húsnæði í auknum mæli. „Hlutfall þeirra sem eru á leigumarkaði hefur ekki verið viðlíka lágt síðan í kringum hrun þegar það mældist 12% í lok árs 2008. Síðan þá hefur þetta hlutfall verið að sveiflast í kringum 14-18% og verið að meðaltali um 16%. Frá miðju ári 2019 hefur hlutfall leigjenda verið á niðurleið og farið úr því að vera 18% í júlí 2019 og niður í 13% í júlí 2020,“ segir í skýrslunni.