Mynd: EPA-EFE - UPI POOL

Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.
Trump enn með fullyrðingar um víðtækt kosningasvindl
26.11.2020 - 06:49
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, heldur áfram fullyrðingum sínum um víðtækt og umfangsmikið kosningasvindl í nýafstöðnum forsetakosningum, þar sem hann tapaði fyrir Joe Biden.
Trump ávarpaði samkomu Repúblikana á ríkisþinginu í Pennsylvaníu í gær, í gegnum fjarfundabúnað. Hann sagði brýnt að snúa úrslitum kosninganna, og sagði brögð hafa verið í tafli af hálfu Demókrata. Hann færði hvorki rök né sannanir fyrir þessum fullyrðingum sínum nú fremur en endranær, en hvatti flokkssystkin sín til að halda baráttunni áfram.
Trump og lögfræðingateymi hans hafa höfðað tugi mála í því skyni að fá kosningaúrslitum í einstökum ríkjum hnekkt, en ekki haft erindi sem erfiði. Joe Biden fékk ríflega sex milljónum fleiri atkvæði en Trump á landsvísu og uppskar 306 kjörmenn á móti 232 kjörmönnum Trumps.