Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stjórnvöld ein og sér bjarga ekki atvinnulífinu

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Stjórnvöld ein og sér munu ekki bjarga íslensku atvinnulífi í gegnum heimsfaraldurinn. Fyrirtæki munu þurfa að fara í endurskipulagningu og þar spila bankarnir lykilhlutverk. Þetta sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, á Alþingi í dag. Það var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar sem spurði ráðherra út í viðspyrnuna, skjaldborg stjórnvalda um krónuna og framtíðarsýn fyrir ferðaþjónustuna.

„Þess vegna vil ég spyrja hæstvirtan ráðherra; mun hann beita sér fyrir því að taka undir þessi sjónarmið Samtaka atvinnulífsins og innan ferðaþjónustunnar að reyna að auka á þennan fyrirsjáanleika?“ spurði Þorgerður Katrín. „Ég minni enn og aftur á við erum með meira atvinnuleysi heldur en flestar aðrar Evrópuþjóðir sem við viljum bera okkur saman við og við verðum að taka okkur saman hér í andlitinu.“

„Stjórnvöld ein og sér munu auðvitað ekki bjarga íslensku atvinnulífi í gegnum faraldurinn og það sem á eftir kemur, fyrirtæki munu þurfa að fara í heilmikla endurskipulagningu,“ sagði Þórdís Kolbrún. „Þar spila til dæmis bankar lykilhlutverk hvernig þeir ætla að hjálpa sínum viðskiptavinum að komast í gegnum það á þeim forsendum sem þeim er heimilt að gera. Við munum veita ferðaþjónustunni meiri fyrirsjáanleika og ég kvíði því ekkert að við munum geta staðið við það sem við höfum áður sagt við ferðaþjónustuna og það sem ferðaþjónustan er að kalla eftir í gær. Á nýju ári munum við geta sagt hvernig landamærin líta út.“