Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stal 30 armböndum og þremur brjóstnælum

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi fertugan karlmann í dag til eins árs fangelsisvistar fyrir ýmis þjófnaðarbrot í Reykjavík og á Akranesi. Hann veittist jafnframt með ofbeldi að starfsmanni verslunar sem hafði afskipti af einum þjófnaði hans. Maðurinn hrækti í átt að starfsmanninum og í andlit hans.

Flest brotin framdi maðurinn í ágúst og september en tvö í febrúar. Brotin voru mis umfangsmikil. Hann stal 30 armböndum, ellefu hringjum og þremur brjóstnælum úr versluninni Gull og silfri á Laugarvegi, að verðmæti 5,2 milljónir króna. Hann stal fimmtán spjaldtölvum, fimm snjallúrum og sex fartölvum að verðmæti tæpar þrjár milljónir úr Elko á Fiskislóð.
Maðurinn stal einnig fartölvu af veitingastað, bíllyklum og farsíma úr starfsmannaaðstöðu apóteks, einnig tóbaki fyrir 600 þúsund krónur úr Miðausturlandamarkaðnum.

Maðurinn játaði skýlaust sök og var það metið honum til tekna við ákvörðun refsingar. Vegna þess hversu umfangsmikil brotin voru þótti ekki hægt að skilorðsbinda refsinguna. 
 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV