Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rukkaður um hátt í fimm milljónir fyrir bíla í rekstri

26.11.2020 - 12:13
Mynd með færslu
 Mynd: - - Kormákur Hermannsson
Skatturinn hefur rukkað fyrrverandi eiganda ferðaþjónustufyrirtækis um hátt í fimm milljónir, vegna hlunninda af tveimur bílum sem notaðir voru í rekstrinum. Eigandinn segist hafa sýnt fram á að hann hafi ekki notað bílana í eigin þágu.

Frá 2011 fram á þetta ár rak Kormákur Hermannsson ferðaþjónustufyrirtækið Basecamp Iceland. Fyrirtækið sérhæfir sig í lúxusferðum með litla hópa, til dæmis á Snæfellsnes og Gullna hringinn. Til þess að fara með hópana keypti Kormákur tvo notaða Land Rover Discovery bíla. Kormákur segir að reksturinn hafi gengið vel, en hann seldi bílana árið 2018 og hóf svo störf hjá öðru fyrirtæki á þessu ári. Í apríl síðastliðnum fékk Kormákur hins vegar bréf frá Ríkisskattstjóra.

„Það sem kemur fram í þessu bréfi er að þeir vilja fá skýringar á því hvernig notkun á þessum bílum var háttað. Og þeir gera mér grein fyrir því að umráð yfir bifreiðum hafi í för með sér greiðslu á bifreiðahlunnindum,“ segir Kormákur.

Sjálfkrafa greiðsla

Getur þú sýnt fram á að þú hafir ekki verið að nota bílana í eigin þágu?

„Já já. Og þetta mál er ennþá í vinnslu. Og við höfum sent skattstjóra ítarlega greinargerð yfir notkunina á þessum bílum. En þeir segja í þessu bréfi að þótt við höfum útskýrt að þessar bifreiðar hafi verið notaðar í ferðaþjónustu, þá hafi það sjálfkrafa í för með sér greiðslu á bifreiðahlunnindum, að hafa yfirleitt yfirráð yfir bílnum.“

Hvað er skatturinn að rukka þig um háa upphæð?

„Málið er í vinnslu hjá þeim en þeir eru að rukka mig um hátt í fimm milljónir.“

Kormákur hefur leitað til bæði lögmanns og endurskoðanda vegna málsins og segist hafa þurft að greiða hátt í milljón vegna þess. Hann eigi ekki von á að fá þá peninga aftur. Hann segist vita um fleiri svona dæmi.

„Ég heyri af því að menn hafa verið að borga mjög háar upphæðir af bílum sem hafa sannarlega verið notaðir í rekstur,“ segir Kormákur.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV