Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Páll Magnússon ber upp frumvarp um heildaraflahlutdeild

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frekari samþjöppun aflaheimilda en sem nemur þeim 12 prósentum sem fiskveiðistjórnunarlögin gera ráð fyrir verður ekki leyfð, nái frumvarp Páls Magnússonar formanns allsherjarnefndar Alþingis og oddvita Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi fram að ganga. Frumvarpið var lagt fram í kvöld.

Páll segist hafa sannfæringu fyrir málinu en efast um að sjávarútvegsráðherra úr hans flokki hafi sömu sannfæringu. Páll Magnússon hefur einn lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem snýr fyrst og fremst að heildaraflahlutdeild.

„Þetta er til að taka afdráttarlaust af skarið um það að löggjafinn ætlar sér ekki að leyfa meiri samþjöppun í aflaheimildum en sem nemur þeim 12 prósentum sem fiskveiðistjórnunarlögin gera ráð fyrir,“ segir Páll.

„Með öðrum orðum það gengur ekki fyrir stórt fyrirtæki í sjávarútvegi, sem væri kannski komið upp undir þessi mörk, 12 prósent, að kaupa síðan 49 prósent í öðru stóru sjávarútvegsfyrirtæki án þess að sá hlutur teldist með þeim aflaheimildum sem fyrirtækið átti fyrir. Með öðrum orðum að koma í veg fyrir frekari samþjöppun.“ Páll segir að senda þurfi út þau skilaboð að frekari samþjöppun en gert er ráð fyrir í frumvarpinu verði ekki liðin.

Hefði ekki verið eðlilegt að sjávarútvegsráðherra í þínum flokki hefði sjálfur lagt þetta frumvarp fram?

„Ja, kannski ekkert endilega. Ef ráðherrann hefur ekki sannfæringu fyrir þessu máli þá er svo sem ekki hægt að gera þá kröfu að hann leggi fram frumvarp um málið ég hef sannfæringu fyrir þessu máli og ég legg frumvarpið fram.“