Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Margir dóu í átökum langt í burtu”

26.11.2020 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
„Hundruð hafa fallið og tugir þúsunda flúið heimili sín vegna átaka í Tigray héraði í norðanverðri Eþíópíu...”. Fregnir af stríðinu í þessum hluta elsta lands Afríku hafa ratað í fjölmiðla nær daglega síðustu vikur. Fyrir tveimur vikum voru mörg hundruð menn, konur og börn ýmist höggvin eða stungin til bana í sama bænum, fjórum dögum eftir að stríðið hófst. En um hvað snýst deilan og hver er afsökun yfirvalda fyrir blóðugum fjöldamorðum og stríðsrekstri í landinu?

Flókið land með stóra sögu

Héraðið Tigray er í norðanverðri Eþíópíu, næst-fjölmennasta landi Afríku. Í byrjun nóvember lýstu eþíópísk stjórnvöld yfir stríði í héraðinu sem hafði gífurlega alvarlegar afleiðingar í för með sér á stuttum tíma. Stríðið, sem er þó bæði stutt á veg komið og á afmörkuðu svæði, hefur skapað mikinn ótta og glundroða í landinu. Líklega hafa um þúsund manns látið lífið á þessum þremur vikum, en tala látinna er mjög á reiki sökum lélegs fjarskiptasambands og upplýsingagjafar. 

Eþíópía er eitt elsta ríki í Afríku og var eina landið sem hélt sjálfstæði sínu á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar, missti það síðan í nokkur ár í hendur Ítala, en fékk aftur sjálfstæði á ný á kunnuglegu ári, 1944. Eþíópía er er sambandslýðveldi níu þjóðríkja Afríku og þar búa meira en 70 mismunandi þjóðflokkar, margir mjög ólíkir innbyrðis. Opinbert tungumál landsins er amharíska og flestir tilheyra eþíópísku rétttrúnaðarkirkjunni. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Um 70 ólíkir ættbálkar búa og starfa í Eþíópíu, fjölmörg tungumál eru töluð og trúarbrögð iðkuð.

Þriggja vikna stríð

Stríðið í Tigray hófst með hvelli 4. nóvember. Segja má að kveikjan hafi verið kosningar í héraðinu í ágúst, sem fóru fram án samþykkir yfirvalda í Eþíópíu. Forsætisráðherra landsins, Abiy Ahmeds, sagði þær alvarlegt brot við stjórnarskrá landsins og leysti síðan upp héraðsþing Tigray, sem er eitt af tíu sjálfsstjórnarhéraða í landinu. Eins og algengt er á slíkum svæðum starfa þar hópar aðskilnaðarsinna sem krefjast sjálfstæðis frá landinu. Um sex prósent þjóðarinnar býr í Tigray, af þeim 110 milljónum sem búa í Eþíópíu. 

Tigray hérað hefur lengi verið valdamikið og hafa yfirvöld þar verið í framlínunni í ríkisstjórn landsins í um þrjá áratugi, samkvæmt AFP fréttastofunni. Átök hafa verið kraumandi þar lengi, en það var svo nú í haust, þegar stjórnarflokkurinn í Tigray ákvað að halda kosningar í héraðinu í þeim tilgangi að stíga stórt skref í átt að sjálfstæði. Stjórnvöld héraðsins svöruðu ríkisstjórninni, sem dæmdi kosningarnar ólöglegar, að þau væru ekki lengur undir þeirra stjórn. 

epa08840650 Members of the Ethiopian Tigrayan community in South Africa protest against the Ethiopian government for what they call a civil war in Tigray and genocide on Tigray people, outside the Department of International Relations and Co-operation (DIRCO) in Pretoria, South Africa, 25 November 2020. The purpose of the protest was to call on the government of South Africa and the United Nations to exert pressure on all parties to de-escalate the conflict in Tigray, Ethiopia and to protect civilians and open a humanitarian corridor.  EPA-EFE/YESHIEL PANCHIA
 Mynd: EPA-EFE - EPA

250.000 örvæntingafullir hermenn

Eþíópísk stjórnvöld ákváðu þá að skera niður fjárveitingar til héraðsins, sem var túlkað sem stríðsyfirlýsing. Og allt sprakk í loft upp. Ríkisstjórnin sagði stjórnvöld í Tigray hafa farið yfir „rauða línu” og réðust svo inn í herstöð í héraðinu. 

Skotbardagar, loftárásir og annar ömurlegur stríðsrekstur fylgdi í kjölfarið. Fjarskiptasamband hefur legið niðri vikum saman svo það hefur reynst erfitt að fá nákvæmar fréttir af gangi mála. Samkvæmt Al Jazeera hefur Tigray hérað yfir að ráða um 250.000 hermönnum, sem er mikið, og talið er að stríðið gæti ílengst vikum og jafnvel mánuðum saman. Þá eru enn ótaldar þær afleiðingar sem gætu fylgt ef átökin berast út fyrir landsteinana, sem er nú þegar orðin raunin. 

Fólk stungið eða höggvið til bana

Mannréttindasamtökin Amnesty International staðfestu um miðjan mánuðinn að fimm dögum eftir að átökin byrjuðu, 9. nóvember, voru að minnsta kosti sex hundruð almennir borgarar drepnir í borginni Mai-Kadra, í suðurhluta héraðsins, eftir að hafa verið annað hvort stungnir eða höggnir til bana (e. either stabbed or hacked to death). Það voru börn, konur og menn. 

Um miðjan nóvember skutu stjórnendur Tigray flugskeytum yfir til Asmara, höfuðborg Eritreu, sem markaði þau þáttaskil. Stjórnendur héraðsins sögðu þetta eitt skref í baráttunni, til að koma stjórnarher Eþíópíu úr héraðinu. 

Ethiopian refugees gather in Qadarif region, easter Sudan, Tuesday, Nov. 17, 2020. The U.N. refugee agency says Ethiopia's growing conflict has resulted in thousands fleeing from the Tigray region into Sudan as fighting spilled beyond Ethiopia's borders and threatened to inflame the Horn of Africa region. (AP Photo/Marwan Ali)
Eþíópískir flóttamenn í Súdan. Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP

Lokabardaginn á að vera í dag

Hátt í tuttugu þúsund eþíópískir borgarar hafa flúið land, flestir til Súdan, eftir að átökin byrjuðu. Í morgun bárust svo þær fregnir að Ahmed forsætisráðherra hafi fyrirskipað hernum að hefja lokasóknina gegn hermönnum héraðsins. Lokafrestur til uppgjafar aðskilnaðarsinna er þá runninn út. Ekki er ólíklegt að við fáum fregnir af fleiri óskiljanlega háum tölum af dauðsföllum, sprengjum og árásum frá Afríku á næstu dögum.

Mynd með færslu
 Mynd: google maps