Hitabeltisstormurinn Nivar tók land á suðurströnd Indlands í nótt, með meðalvindhraða upp á 36 metra á sekúndu og óhemjuúrhelli í farteskinu. Í héruðunum Tamil Nadu, Andhra Pradesh og Puducherry hefur nær 200.000 manns verið gert að yfirgefa heimili sín og forða sér í öruggt skjól í þar til gerðum neyðarskýlum. Vitað er um eitt dauðsfall af völdum óveðursins til þessa.