Mikkelsen tekur við hlutverkinu af Johnny Depp, sem var gert að taka pokann sinn á dögunum eftir sneypuför fyrir breska dómstóla. Þar freistaði hann þess að fá breska götublaðið Sun dæmt fyrir meiðyrði fyrir að segja hann hafa barið konu sína, Amber Heard. Dómarinn í meiðyrðamálinu komst að þeirri niðurstöðu, að vel athuguðu og ítarlega útlistuðu máli, að frásögn blaðsins væri í grundvallaratriðum rétt og sönn, og vísaði málinu frá.
Búið var að taka upp nokkur atriði þar sem Depp var í hlutverki Grindelwalds þegar úrskurðurinn féll, en það kom ekki í veg fyrir brottrekstur hans.
Þaulvanur þrælmennum
Mikkelsen er einn þekktasti leikari Dana og Norðurlandanna allra. Hann hefur leikið í fjölda danskra og alþjóðlegra stórmynda og sjónvarpsþátta af öllu tagi. 2018 lék hann aðalhlutverkið í kvikmyndinni Arctic, sem tekin var upp hér á landi, á móti Maríu Thelmu Smáradóttur.
Hann er ef til vill þekktastur í dag fyrir túlkun sína á siðblindum þrælmennum, annars vegar raðmorðingjanum og mannætunni Hannibal Lecter í bandarísku sjónvarpsþáttaröðinni Hannibal, og illyrminu Le Chiffre í Bond-myndinni Casino Royale árið 2006. Hann verður því trauðla í vandræðum með að túlka hið fjölkunnuga hrakmenni Gellert Grindelwald.