Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, segir stjórn sína „beita því valdi sem þörf er á“ í baráttunni gegn vígaferlum þjóðarbrota í landinu. Mynd: EPA-EFE - EPA
Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, fyrirskipaði í morgun hernum að hefja lokasóknina gegn uppreisnarmönnum í Tigray-héraði í norðurhluta landsins.
Forsætisráðherrann sendi frá sér tilkynningu þess efnis skömmu eftir að rann út sá frestur sem uppreisnarmönnum var gefinn til að gefast upp. Hann sagði að hernum hefði verið skipað að hefja þriðja og síðasta áfanga þeirra aðgerða sem hófust snemma í þessum mánuði.
Áhersla væri lögð á að verja almenna borgara og reynt yrði að komast hjá mikilli eyðileggingu í Mekele, höfuðstað Tigray. Markmiðið væri að handsama forystumenn Þjóðfrelsisfylkingarinnar TPLF og sækja þá til saka. Eþíópíski herinn segist vera búinn að umkringja Mekele.