Jón Þór braut bein í rafmagnsleysinu í Slóvakíu

Mynd með færslu
 Mynd: Mynd/Jón Þór

Jón Þór braut bein í rafmagnsleysinu í Slóvakíu

26.11.2020 - 22:14
Íslenska kvennalandsliðið vann Slóvakíu 3-1 í afar mikilvægum leik í undankeppni EM 2022 í kvöld. Landsliðsþjálfarinn Jón Þór Hauksson lenti þó í miður skemmtilegu atviki þegar rafmagnið fór skyndilega af vellinum.

Um miðjan seinni hálfleik sló öllu rafmagni út af leikvanginum í Slóvakíu og var leikurinn stöðvaður í um 10 mínútur. 

„Þetta gerðist eftir rafmagnsleysið. Okkur fannst við byrja seinni hálfleik vel og vildum halda því áfram. Við vorum að hvetja leikmenn áfram og mér fannst alveg upplagt að kýla í bekkinn með krepptum hnefa til að leggja áherslu á það,” segir Jón Þór, en það fór ekki betur en svo að hann braut bein í litla fingri og er kominn í gips. Jón Þór tekur fram að hann sé eini „leikmaður“ liðsins í gipsi. „Sem betur fer!“

Ísland mætir Ungverjalandi í lokaleik riðilsins á þriðjudag en Ísland er í dauðafæri á að komast á EM. Leikur Íslands og Ungverjalands verður í beinni útsendingu á RÚV á þriðjudag kl. 14:30. 

Mynd með færslu
 Mynd: Mynd/Jón Þór