Íslenskur píanisti kemur fram á Nóbelsverðlaunaathöfn

Jazzpíanistinn Anna Gréta Sigurðardóttir.
 Mynd: - - Magnus Andersen

Íslenskur píanisti kemur fram á Nóbelsverðlaunaathöfn

26.11.2020 - 13:58

Höfundar

Píanóleikarinn Anna Gréta Sigurðardóttir hlaut nýverið þann heiður að fá boð um að koma fram á Nóbelsverðlaunaafhendingunni í Stokkhólmi í desember.

Verðlaunaafhendingin fer fram 10. desember í gyllta salnum í Stadshuset í Stokkhólmi. Anna Gréta Sigurðardóttir kemur þar fram ásamt fimm öðrum einleikurum, þar á meðal hinni hálf-íslensku Eddu Magnason sem fór með hlutverk djasssöngkonunnar Monicu Zetterlund í kvikmyndinni Monica Z.

Anna Gréta Sigurðardóttir er djasspíanóleikari og tónskáld. Hefur hún á síðustu árum orðið einn af eftirsóttustu djasspíanóleikurum Svíþjóðar. Hún hefur hlotið viðurkenningar og verðlaun þar í landi sem og á Íslandi. Má þar nefna hin virtu Monica Zetterlund verðlaun árið 2019, björtustu vonina á íslensku tónlistarverðlaununum 2015, tvær tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2019 og tilnefningu til Jazzkatten af sænska ríkisútvarpinu árið 2018.

Anna Gréta gaf árið 2019 út plötuna Brighter í samstarfi við sænska gítarleikarann Max Schultz. Sem stendur vinnur Anna Gréta að nýrri tónlist fyrir sína fyrstu sólóplötu þar sem hún syngur, spilar og semur efnið. Meðal samstarfsfólks hennar er Skúli Sverrisson, Einar Scheving og Albert Finnbogason. Stefnt er á útgáfu á vormánuðum 2021.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Louise Glück fær Nóbelsverðlaunin í bókmenntum