Þetta var næst síðasti leikur Íslands í undankeppni EM 2022 og er Ísland r í harðri baráttu um að komast í lokakeppni EM. Sigur í dag var því gríðarlega mikilvægur fyrir íslenska liðið.
Það byrjaði þó ekki vel fyrir Ísland því Slóvakía komst yfir í leiknum á 25. mínútu þegar Mária Mikolajová skoraði fyrir Slóvaka. Staðan var 1-0 í hálfleik en íslenska liðið lét til sín taka í síðari hálfleik.
Á 61. mínútu jafnaði Berglind Björg Þorvaldsdóttir metin fyrir Ísland eftir frábæra sókn.
Stórkostleg sókn! 1-1 gegn Slóvakíu! pic.twitter.com/Zi4od07JqW
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) November 26, 2020
Íslenska liðið efldist töluvert við jöfnunarmarkið og á 67. mínútu fékk Ísland dæmta vítaspyrnu. Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði, tók vítið en markvörður Slóvaka varði. Dómari leiksins lét þó endurtaka spyrnuna þar sem markvörður gestanna hafði farið af marklínunni í aðdragandanum. Sara Björk skoraði úr spyrnunni og Ísland þar með komið í forystuna.
Ísland kemst í 2-1!!! Ísland fær vítaspyrnu, Söru Björk tekst ekki að skora en dómarinn lætur endurtaka spyrnuna þar sem markvörður Slóvaka var kominn af marklínunni. Sara skorar úr seinni tilrauninni! Það var lagið! pic.twitter.com/sccGJEk2fh
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) November 26, 2020
Tíu mínútum síðar fékk Ísland aftur dæmda vítaspyrnu. Sara Björk steig aftur á vítapunktinn og breytti stöðunni í 3-1.
Já já já já!!! 3-1! Sara Björk bætir við öðru marki sínu úr vítaspyrnu í kvöld. pic.twitter.com/sA9FVWm0M5
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) November 26, 2020
3-1 reyndust lokatölur í Slóvakíu í kvöld og Ísland nældi um leið í afar mikilvæg þrjú stig. Svíþjóð er nú þegar búið að tryggja sér efsta sætið í riðli Íslands en nái Ísland að vera eitt af þremur liðum með bestan árangur í 2. sæti síns riðils kemst íslenska liðið beint á EM. Ísland mætir Ungverjalandi í lokaleik sínum í undankeppninni þann 1. desember og nái Ísland þremur stigum úr þeim leik er íslenska liðið afar líklegt til að komast beint á EM.