Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Flugvirkjar féllust ekki á tillögu sáttasemjara

26.11.2020 - 19:41
Mynd: Aðsend mynd / Aðsend mynd
Ekkert miðaði í viðræðum flugvirkja og ríkisins í dag. Guðmundur Úlfar Jónsson formaður Félags flugvirkja segir að lítið hafi miðað í viðræðunum í dag. Dómsmálaráðherra hefur sagt að til greina komi að setja lög á verkfallsaðgerðirnar. Ríkissáttasemjari segir að hann hafi lagt fram tillögu sem flugvirkjar gátu ekki sætt sig við.

„Þrátt fyrir langan fund í dag þá gekk þetta ekki saman. Því miðaði ekki mikið í rétta átt,“ segir Guðmundur Úlfar.

Stærsta atriði sem viðræðurnar stranda á er tenging kjarasamninga við aðalkjarasamninga flugvirkja hjá Icelandair. Hann segir að ekki komi til greina að slá af þeim kröfum. Dómsmálaráðherra hefur sagt að lagasetning á verkfallsaðgerðirnar séu til skoðunar. Verði það raunin segir Guðmundur að það séu vonbrigði.

„Þá er það úr okkar höndum og við lútum því,“

Býstu við því að það verði niðurstaðan úr því sem komið er?

„Ég get ekki sagt til um það,“

Vonbrigði?

Það eru vonbrigði já, við hefðum viljað samning í dag, það tókst ekki.“ segir Guðmundur Úlfar.

Dómsmálaráðherra vildi ekki tjá sig um næstu skref í dag fyrr en að fundinum loknum. Ríkissáttasemjari segir að í ljósi þess að neyðarástand sé í gildi þá hafi hann lagt fram svokallaða innanhússtillögu.

„Hún felur í sér að núverandi kjarasamningur verði framlengdur til loka næsta árs. Að tenging við aðalkjarasamning flugvirkja myndi halda sér og að þær hækkanir sem komu til í aðalkjarasamningi Flugvirkjafélags Íslands og Icelandair myndu einnig koma inn og til framkvæmda. Ég lagði mjög hart að deiluaðilum að samþykkja þessa tillögu en því miður gátu flugvirkjar hjá Landhelgisgæslunni ekki samþykkt þessa tillögu, en ríkið var til í þessa leið.

Næstu skref eru að ríkissáttasemjari reyni að fá deiluaðila til að finna opnun til að ná samkomulagi um viðræðurnar.