Eins og að draga úr manni tennurnar með naglbít

Mynd: . / .

Eins og að draga úr manni tennurnar með naglbít

26.11.2020 - 10:43

Höfundar

Höfuðbók eftir Ólaf Hauk Símonarson er blanda af raunveruleika og skáldskap. Í bókinni lýsir Ólafur Haukur eigin reynslu af þrenndartaugaverk sem breytti daglegu lífi hans í hreint helvíti.

Að sögn Ólafs Hauks gerði sjúkdómurinn lítið boð á undan sér og verkirnir byrjuðu nokkuð sakleysislega. Hann fékk fiðring í höfuð og andlit og því fylgdu svo ofboðslegir verkir. Ólafur Haukur segist hafa háan sársaukaþröskuld og gortaði sig gjarnan af því að láta ekki deyfa sig hjá tannlækni. Það hafi nú komið rækilega í höfuðið á honum líkt og bjúgverpill. „Maður montar sig ekkert af því að standast sársauka þegar þetta er annars vegar. Þetta er eins og það sé verið að draga úr manni tennurnar með naglbít og borað þvert í gegnum skallann. Þetta er til í ýmsum myndum og ýmsum gerðum. Venjulega fylgja þessu þessi miklu sársaukaáhlaup,” segir Ólafur Haukur. 

Þrenndartaug er stór taug sem stýrir tilfinningum í andliti og vöðvum að einhverju marki. „Það getur hlaupið einhver ári í þessar taugar og það er hreint ekkert grín. Þá verður maður nánast óstarfhæfur í sökum verkja og hreinnar angistar við það sem kemur,” segir Ólafur Haukur um sjúkdóminn. 

Oft er hægt að halda sjúkdómnum í skefjum með lyfjum en ekki í tilfelli Ólafs Hauks. Hann þurfti því að fara í aðgerð. „Það var farið inn í kollinn á mér og ráðist á taugina þar sem hún kemur niður úr heilanum og hún gerð óvirk.” Ýmsar aukaverkanir fylgdu aðgerðinni. Tilfinningaleysi og dofi í andliti, bragðskynið hvarf að einhverju marki og lyktarskyn breyttist. Ólafur segir að það séu smámunir í samanburði miðað við verkina sem hann var með fyrir aðgerðina. 

Verkirnir náðu hámarki árið 2018 og þá ákvað Ólafur Haukur að fara vestur á Snæfellsnes til að skrifa Höfuðbók. „Hvað gerir maður þegar að Róm brennur? Þá fer maður að spila á fiðlu. Þegar Titanic er að sökkva fer hljómsveitin að spila á fullu,” segir Ólafur Haukur. 

Markmiðið var ekki að skrifa sig í gegnum verkina heldur eingöngu að halda sjó með einhverju móti, segir Ólafur Haukur sem ákvað að skrifa um það sem honum þótti sjálfum skemmtilegt og fróðlegt. Hann þekkir vel til á Snæfellsnesi sem hann segir að sé stórbrotið leiksvið fyrir bókina þar sem blandað saman raunverulegu fólki, lifandi og látnu, og skáldaðum og skemmtilegum persónum.

Fyrr á tímum var þrenndartaugaverkur oft kallaður sjálfsvígssjúkdómurinn. „Það er nú ekki fallegt nafn. En að einhverju leyti réttnefni. Ef ekkert er að gert, engin lyf til að hjálpa þeim sem lyfin geta hjálpað og engar aðgerðir í boði. Þá er þetta eiginlega óbærilegt til lengdar,” segir Ólafur Haukur um nafngiftina. Hann segir því að konan hans hafi hreint ekki verið ánægð með að hann væri einn að dandalast á Snæfellsnesi. “En hún hafði svona símaeftirlit með mér,” segir Ólafur Haukur. 

Ólafur Haukur segir að þrenndartaugaverkurinn hafi ekki haft mikil áhrif á lífsviðhorf hans. „Þegar maður er kominn á þennan virðulega aldur veit maður að það er ekkert gefið í lífinu. Það verður hver að svara fyrir sig í þeim efnum. Ég myndi ekki óska nokkrum óvini mínum, ég á nú eiginlega engan óvin, en ég myndi ekki óska neinum manni að glíma við þennan hrylling. Mér líður ljómandi vel í dag, hef náð talsverðu þreki og er nokkuð brattur.”

Ólafur Haukur sendir nú einnig frá sér þriðju bókina um fólkið í blokkinni. „Fólkið í blokkinni kemur alltaf til mín reglulega með nýjar sögur. Það er ein stelpa þarna í blokkinni sem skrifar fyrir mína hönd. Sögurnar eru séðar og skrifaðar í gegnum hana. Hún hefur vit fyrir mér hvernig á að koma þessum sögum á framfæri,” segir Ólafur Haukur.