Mynd: Landspítalinn

Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.
Breytt lyktar- og bragðskyn stundum einu einkennin
26.11.2020 - 10:10
Sumir þeirra sem smitast af COVID-19 finna engin einkenni nema breytingar á lyktar- og bragðskyni. Talið er að bragð- og lyktarskyn breytist hjá 40-50 prósentum þeirra sem sýkjast. Þetta kemur fram í nýju svari Jóns Magnúsar Jóhannessonar, deildarlæknis á Landspítalanum, á Vísindavefnum.
Yngra fólk er líklegra en eldra til að finna fyrir breytingum á lyktar- og bragðskyni en einkennin eru ekki einstök fyrir COVID-19 og geta einnig fylgt öðrum öndunarfærasýkingum.
Hvers vegna breytist lyktar- og bragðskyn?
Í svarinu kemur fram að orsakavaldar öndunarfærasýkinga séu ótalmargir en að veirur virðist hafa meiri áhrif og bragð og lykt heldur en aðrir sýkingarvaldar.
Veirur geti haft áhrif á lyktarskyn á þrjá vegu:
- Veirusýking í slímhúð nefhols getur valdið bólgu, sem truflar aðgengi lyktarnema að sameindum í innöndunarlofti.
- Veira getur haft bein, skaðleg áhrif á lyktarnema.
- Veira getur flust yfir í lyktarklumbu og sýkt taugavef beint.
Í svarinu segir að leið 1 og 2 séu líklega þær sem eigi mestan þátt í einkennum COVID-19. Flestir jafni sig á einkennunum eftir 1-2 vikur en hluti verði líklega fyrir langvarandi skerðingu á lyktar- og bragðskyni. Það skýrist á næstu mánuðum og árum.