Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Brexitáhrifin verri til lengdar en veiruáhrifin

26.11.2020 - 17:02
Mynd: EPA / EPA
Mesta efnahagsáfall í Bretlandi síðan frostaveturinn mikla 1709, ríkið ekki þurft að mæta öðrum eins útgjöldum og sanda í öðrum eins lántökum síðan í seinni heimsstyrjöldinni, allt vegna veirufaraldursins sem leggst þungt á Breta. Þetta var boðskapur Rishi Sunak fjármálaráðherra Breta í breska þinginu í gær. En það er annað verra fyrir Breta en veiran: fjármálaráðherra nefndi ekki Brexit en bankastjóri Englandsbanka varaði við því í vikunni að áhrif Brexit, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, gæt

Eins og framtíð heimsins hangi á þremur fyrirtækjum

Það mætti á stundum halda að framtíð heimsins hangi á þremur fyrirtækjum, það er lyfjafyrirtækjunum, sem hafa þegar kynnt bóluefni gegn Covid-19 veirunni. Auðvitað kemur fleira til en í spám hagfræðinga þessa mánuðina um framvindu hagkerfa eru gjarnan fleiri en ein spá í boði. Háð því hvort og hvenær áhrifa bóluefnis fer að gæta á mannlífið og viðskiptalífið.

Heilsuvá, hagvá

Í gær þegar Rishi Sunak fjármálaráðherra Breta kynnti útgjaldayfirlit næsta árs fyrir þingheimi var veiran ofan og allt um kring frá því hann tók til máls. Heilsuváin er ekki á enda, hagváin rétt að byrja, sagði Sunak. Þessar tvær ógnir fléttuðust saman í yfirlitinu. Gríðarleg ríkisútgjöld, sem gefa til kynna skattahækkanir í blárri framtíð, sem Sunak ræðir þó alls ekki hér og nú. Nú ríður einfaldlega á að reiða fram fé meðan landið þokast út úr veiruskugganum.

Ríkisskuldir á blússandi uppleið

Fjármálaráðherra rissaði upp stóru línurnar og romsaði upp fullt af tölum til að sýna að stjórnin stæði við orð sín um að styðja fólk og fyrirtæki þó öllum yrði ekki bjargað. Ríkisskuldir munu því hækka verulega: árið 2025 má ætla að landsframleiðsla verði þremur prósentum minni en verið hefði án veirunnar. Og þá búist við að skuldir hins opinbera verði tæp ein heil landsframleiðsla, tæpum fimmtán prósentustigum meir en í fyrra.

En fjármálaráðherra boðaði einnig að framtíðin er ekki aðeins undir ríkisstjórninni komin. Framtíðin er í höndum okkar allra, sagði hann í lokin; að skapa betra land er sameiginlegt verkefni.

Ekki annar eins hagskellur síðan 1709

Það þarf að fara áratugi og aldir aftur í tímann til að finna aðra eins hagskjálfta og nú. Ekki síðan frostaveturinn mikla 1709 hefur efnahagur Breta skroppið viðlíka saman og nú. Ekki síðan á stríðsárunum hefur ríkið þurft að taka jafnmikið af lánum og nú. Og annað högg, sem margir muna, fjármálakreppuna 2008. Gleymum henni, höggið af veirukreppunni er tvöfalt miðað við áhrif fjármálakreppunnar.

Lántaka ríksins hræðir – en vextir eru metlágir

Lántakan hins opinbera vex mörgum í augum, ekki síst í stjórnarflokknum, Íhaldsflokknum. Á hinn bóginn, ríkisskuldir lúta öðrum lögmálum en heimilisskuldir. Það gerir sannarlega gæfumuninn að vextir eru í sögulegu lágmarki og hækka vart í bráð.

Spá óháðrar stofnunar: efnahagsframvindan háð Covid-19

Office of Budget Responsibility eða Stofnun um árbyrg fjárlög er sjálfstæð ríkisstofnun, sem hefur, eins og nafnið bendir til, augun á fjárlögum og efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar. Í spá hennar samfara yfirliti fjármálaráðherra eru þrjár ólíkar sviðsmyndir, háðar Covid-19 framvindunni. Mikilvægar breytur eru bóluefni og veiruráðstafanir ríkisstjórnarinnar.

Fjármálaráðherra reiknar framtíðina með Covid-19 en sleppir Brexit

En meðan aðrar þjóðir geta einbeitt sér að veirufaraldrinum hangir önnur, og að sumra mati, enn verri óvissa yfir Bretum. Sem er útgangan úr Evrópusamvinnunni nú í árslok. Þá framtíðarsýn nefndi fjármálaráðherra ekki á nafn. Ekki einu orði. Fjárlagastofnunin tekur hins vegar Brexit-sviðsmyndir með í reikninginn.

Brexit-framvindan = algjör óvissa

Líka þar eru nokkrar breytur mögulegar, allt undir því komið hvort semst um framtíðarviðskipti Breta og Evrópusambandsins. Algjör óvissa, enn verið að semja. Og reyndar, mesti munurinn á samningslausri útgöngu og útgöngu með samning er kannski að sú síðarnefnda mun auðvelda samskipti Breta og ESB eftir útgöngu. En hvort sem semst eða ekki þá mun útganga óhjákvæmilega valda efnahagslegum búsifjum.

Bankastjóri Englandsbanka: til lengdar er Brexit skeinuhættara en Covid-19

Og fleiri spá í Brexit-framtíð Breta. Andrew Bailey bankastjóri Englandsbanka lætur sjaldan heyra í sér en var skorinorður þegar hann sat nýlega fyrir svörum þingnefndar. Hér og nú hefði Covid-19 meiri áhrif en útganga en það væri sannarlega betra að yfirgefa ESB með viðskiptasamning upp á vasann, sagði bankastjórinn.

Boðskapur Baileys er að til lengdar verði Brexit efnahagnum skeinuhættara en Covid. Það eru enn slímusetur við samningaborðið. Búist við samningafréttum þá og þegar, bara óvíst hvort verður af eða á.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir