„Alveg úti á túni í fyrri hálfleik“

Mynd: Mummi Lú / Mummi Lú

„Alveg úti á túni í fyrri hálfleik“

26.11.2020 - 19:42
„Þetta var eins og svart og hvítt hálfleikarnir í kvöld. Í þeim fyrri vorum við bara alveg úti á túni. Það vantaði alla tengingu bæði í sókn og vörn sem var bara ótrúlega mikið úr karakter hjá okkur. Við erum gríðarlega ósáttar við það og það er engin skýring sem manni dettur í hug. En við náðum að rífa okkur í gang í hálfleik,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir varnarmaður í íslenska landsliðinu í fótbolta eftir 3-1 sigur Íslands á Slóvakíu í undankeppni EM í kvöld.

Slóvakar komust í 1-0 í fyrri hálfleik, en íslenska liðið var heillum horfið í hálfleiknum. Í seinni hálfleiknum var mun meiri kraftur og barátta í íslenska liðinu. Berglind Björg Þorvaldsdóttir jafnaði metin á 61. mínútu eftir góða sókn Íslands og Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði svo tvö mörk úr vítaspyrnum og Ísland vann því leikinn 3-1.

„Í seinni hálfleik vorum við líkari okkur sjálfum. Þá vorum við að vinna fyrsta og annan bolta og náðum að spila okkur í gegn. Það var það sem við vildum, að ná að koma boltanum út á kantana og koma með fyrirgjafir,“ sagði Glódís Perla meðal annars í viðtali eftir leikinn í Senec í Slóvakíu í kvöld.

Glódís segist ekki hissa á pressu Slóvaka í fyrri hálfleik. „Nei í sjálfu sér ekki. Þetta var eitthvað sem við vorum búnar að ræða og kom okkur því ekkert á óvart. En af hverju við útfærðum þetta svona rosalega illa veit ég bara ekki. Við verðum að taka það út úr þessu að við megum ekki spila svona, þá lendum við bara undir og verðum í brasi,“ sagði Glódís. Allt viðtalið við Glódísi Perlu má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Sara Björk: „Þetta var slappt víti hjá mér“

Fótbolti

„Þvílíkur karakter í þessu liði“

Fótbolti

Ísland skrefi nær EM