Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Víðir með COVID-19 – Aðrir í teyminu ekki í sóttkví

25.11.2020 - 15:37
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn er með COVID-19. Hann hefur verið í sóttkví síðan á mánudag eftir að smit kom upp í nærumhverfi hans. Víðir fór aftur í sýnatöku í dag og þá reyndist sýni úr honum jákvætt. Hann finnur ekki fyrir einkennum og er kominn í einangrun. Smitið hans hefur ekki áhrif á almannavarnateymi ríkislögreglustjóra sem sinnir aðgerðum gegn COVID-19.

Vegna þess að sýnataka sem Víðir fór í á mánudag var neikvæð fyrir kórónuveirunni þá þykir ekki ástæða til að setja hans nánasta samstarfsfólk í sóttkví. Alma Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fóru ásamt almannavarnateyminu sem stýrir aðgerðum gegn COVID-19 í sýnatöku á mánudag og fengu allir neikvæð sýni.

Enginn annar í teyminu en Víðir þurfti að fara í sóttkví, því Víðir brást fljótt við og afkvíaði sig. Smitrakningarreglan er sú að allir þeir sem hinn smitaði umgekkst 48 klukkustundir áður en smit greindis þurfi að fara í sóttkví. Víðir hefur ekki umgengist almannavarnateymið á þeim tíma.

Víðir hefur tvisvar þurft að fara í sóttkví í faraldrinum. Hann er nú í einangrun í tvær vikur eða þar til hann hefur fengið neikvætt sýni fyrir COVID-19.

Víðir, Alma og Þórólfur mynda þríeykið sem hafa farið fyrir aðgerðum íslenskra stjórnvalda í baráttunni við heimsfaraldur kórónuveirunnar hér á landi. Víðir hefur jafnframt stýrt upplýsingafundum almannavarna með síðan síðasta vetur.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV