Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tíðavörur eru nú ókeypis í Skotlandi

25.11.2020 - 01:27
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Skotland varð í gær fyrsta landið í heiminum þar sem tíðavörur standa öllum sem þær þurfa til boða, án endurgjalds. Lagafrumvarp þessa efnis var einróma samþykkt þegar það var borið undir atkvæði á skoska þinginu að kvöldi þriðjudags. Samkvæmt lögunum ber sveitarstjórnum og heilbrigðisyfirvöldum á hverjum stað að tryggja að tíðatappar, tíðabindi og aðrar tíðavörur séu jafnan aðgengilegar „öllum sem á þeim þurfa að halda," viðkomandi að kostnaðarlausu.

„Blæðingar leggjast ekki af í heimsfaraldri“

Monica Lennon, þingkona Verkamannaflokksins, lagði frumvarpið fram, en hún hefur barist ötullega gegn því sem kallað er tíðafátækt frá árinu 2016. Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir henni að löggjöfin sé þarft framfaraskref og mikilvægari en nokkru sinni nú á tímum kórónaveirufaraldursins.

„Blæðingar leggjast ekki af í heimsfaraldri og það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að bæta aðgengi að tíðatöppum, tíðabindum og margnota tíðavörum," sagir Lennon.

Fátækar konur hafa ekki efni á tíðavörum

Með hugtakinu tíðafátækt er vísað til þess, að fjölmargar lágtekjukonur hafa hvorki efni á né greiðan aðgang að viðeigandi og nauðsynlegum tíðavörum. Blæðingar standa að meðaltali í 5 daga og getur kostnaðurinn vegna þeirra verið upp undir átta sterlingspund á mánuði, segir í frétt BBC, eða sem svarar tæplega 1.500 krónum.

Um fjórðungur svarenda í könnun á vegum skosku samtakanna Young Scot í skólum, menntaskólum og háskólum Skotlands höfðu átt erfitt með að verða sér úti um tíðavörur um lengri eða skemmri tíma vegna fátæktar.

Og samkvæmt könnun sem gerð var 2017 fyrir samtökin Plan, sem berjast gegn tíðafátækt, höfðu um 10 prósent breskra stúlkna lent í því að hafa ekki haft efni á nauðsynlegum tíðavörum, 15 prósent til viðbótar höfðu iðulega átt í vandræðum með að kaupa þær vegna fátæktar og um 19 prósent höfðu látið sig hafa það að kaupa tíðavöru sem hentaði þeim verr en aðrar, vegna blankheita.