Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þyrlur, heimilisofbeldi og „ef ég hefði fengið að ráða”

25.11.2020 - 16:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þingmönnum lá margt á hjarta við upphaf þingfundar í dag. Þyrluleysi Landhelgisgæslunnar, sóttvarnaraðgerðir, niðurskurður á Landspítalanum og heimilisofbeldi í heimsfaraldri er meðal þess sem bar á góma í störfum þingsins. Inga Sæland fullyrti að ef hún hefði fengið að ráða í upphafi faraldursins, væri allt önnur staða uppi í íslensku samfélagi í dag.

Þingfundur hófst klukkan 15 á umræðum um störf þingsins. 21 þingmaður var á mælendaskrá að þessu sinni, úr öllum flokkum sem eiga sæti á Alþingi. 

Ein alvarlegasta skuggahlið faraldursins

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, gerði daginn í dag að umtalsefni, sem er alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi. Hún ræddi um afleiðingar sóttvarnaraðgerða, innanlands sem utan, sem hafa meðal annars gert það að verkum að heimilisofbeldi hefur aukist svo um munar og er orðið eitt af alvarlegustu hliðarafleiðingum faraldursins. Þorgerður skoraði á ríkisstjórnina til að koma fram með aðgerðarpakka til að bregðast við langtímafleiðingum faraldursins og verja frelsi kvenna til að búa ekki við ofbeldi. 

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, tók undir orð Þorgerðar og sagði daginn í dag mikilvægan, enda væru þarna miklar meinsemdir á ferðinni. 
Flokkssystir Þorgerðar, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, ræddi sömuleiðis um heimilisofbeldi á tímum heimsfaraldurs og undirstrikaði mikilvægi þess að bregðast strax við. Enda var ofbeldi á heimilum til staðar fyrir Covid, og verður áfram til staðar eftir faraldurinn. Hún sagði þetta þunga, félagslega afleiðingu ástandsins sem gæti vel lifað áfram ef ekki verði gripið til aðgerða. 

Kaldhæðnisleg tímasetning óveðursins

Þau Albertína Friðbjörg Elíasdóttir Samfylkingu, Þorsteinn Sæmundsson Miðflokki og Páll Magnússon Sjálfstæðisflokki, gerðu öll stöðu Landhelgisgæslunnar að umtalsefni í sínum ræðum. Albertína sagði það kaldhæðnislegt að á sama tíma og fyrsta óverðið ætlar að skella á landsmenn af fullum þunga þennan veturinn, verður líklega engin þyrla til taks ef á þarf að halda. „Mikil er ábyrgð ríkisvaldsins,” sagði Albertína og gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega fyrir þá stöðu sem upp er komin, enda sé ekkert sem réttlæti það að engar þyrlur séu tiltækar. „Það eru 63% líkur á útkalli næstu tvo daga,” sagði hún. „Þetta snýst ekki aðeins um kaup og kjör, þetta er dauðans alvara.” Þorsteinn tók undir og sagði þetta bæði grafalvarlegt og óþolandi. Þá gagnrýndi hann dómsmálaráðherra fyrir að efast um verkfallsrétt stéttanna og sagði ríkisstjórnina reyna að troða illsakir við þær stéttir sem standi í forgrunni bráttunnar. Páll sagði stöðuna sömuleiðis alvarlega og þetta yrði sennilega eini neyðarsíminn í heiminum þar sem svarið verði: „Nei, því miður, það er lokað vegna vinnudeilna.” 

Inga segist hafa getað komið í veg fyrir kreppuna 

Hanna Katrín Friðriksson Viðreisn og Björn Leví Gunnarsson Pírötum, ræddu um yfirvofandi niðurskurð á Landspítalanum og gagnrýndu stjórnvöld fyrir að taka ekki kjarasamninga, óvænt útgjöld og fleira með í reikninginn varðandi fjárveitingar til spítalans. 

Báðir þingmenn Flokks fólksins, Guðmundur Ingi Kristinsson og Inga Sæland, tóku til máls. Guðmundur Ingi hvatti ríkisvaldið til að endurreikna framfærsluþörf almennings og Inga fullyrti að ef yfirvöld hefðu farið eftir hennar ráðleggingum í byrjun faraldursins værum við ekki með jafn strangar sóttvarnarráðstafanir í gildi í dag. „Ef ég hefði fengið að ráða værum við ekki að glíma við þetta. Hér mundi kerfið og okkar inniviðir ganga snuðrulaust,” sagði Inga. Fyrrverandi samflokksmaður þeirra, Karl Gauti Hjaltason, gagnrýndi útgöngubannsúrræðið í nýjum sóttvarnarlögum harðlega og spurði hvers vegna þyrfti að vera hægt að grípa til svo harðra aðgerða þegar núverandi takmarkanir hafi gengið dável. Slíkt úrræði hafi aldrei verið notað hér á landi og ekki á neinu hinna Norðurlandanna. 

Fæðingarorlof, fiskur og grænar fjárfestingar

Þær Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir Framsóknarflokki töluðu báðar um frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags og barnamálaráðherra, um fæðingarorlof og vitnuðu í störf Páls Péturssonar heitins sem félagsmálaráðherra Framsóknarflokks þegar breytingar voru gerðar í hans ráðherratíð á fæðingarorlofssjóði. 

Lilja Rafney Magnúsdóttir, Vinstri grænum, vakti máls á vinnu atvinnuveganefndar á málefnum er varða útflutning á óunnum fiski og sagði þar víða pott brotinn. Samflokksmaður hennar, Kolbeinn Óttarsson Proppé, ræddi um mikilvægi grænnar fjárfestingastefnu og sagði brýnt að nýta þau tækifæri sem liggi í eignarhaldi ríkisins á bönkunum. Seðlabankar víða um heim, sem og hér, séu að huga að fjármálakerfinu með græn viðmið í huga og mikilvægt sé að missa ekki sjónar á loftslagsvánni á tímum heimsfaraldurs. 

Blæðingar gera ekki boð á undan sér

Oddný G. Harðardóttir Samfylkingu hvatti ríkið til að feta í spor Skota, sem hafa gert tíðarvörur ókeypis þar í landi. Hún sagði dömubindi, túrtappa og aðrar sambærilegar vörur jafn mikilvægar og klósettpappír og hvatti til þess að gera þær skattfrjálsar hér. „Blæðingar gera ekki boð á undan sér. Tökum Skota okkur til fyrirmyndar,” sagði Oddný og uppskar nokkur „Heyrheyr” úr þingsalnum.