Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur kostnað vegna umframmengunar undir 200 milljónum

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Kostnaður við uppgjör Íslands vegna mengunar umfram það sem kveðið er á um í Kýótó-samningnum, gæti numið svo litlu sem 200 milljónum króna eða minna, í stað milljarða, sem Umhverfisstofnun taldi mögulegt að íslenska ríkið þyrfti að punga út með.

Þetta kemur fram í Markaðnum, viðskiptakálfi Fréttablaðsins, í dag. Þjóðir heims gerðu samning um loftslagsmál á ráðstefnu í Kýótó í Japan árið 1997, um að draga úr losun gróðurhúsa-lofttegunda og vinna gegn loftslagsbreytingum. Í samningnum var sérstakt ákvæði um að Ísland gæti aukið losun frá stóriðju, en það dugði Íslandi þó ekki til að standa við skuldbindingar sínar.

Um áramótin lýkur tímabilinu sem var miðað við í Kýótó-samningnum, og telur umhverfisstofnun að þá þurfi Ísland að kaupa heimildir fyrir marga milljarða til að losa gróðurhúsalofttegundir. Þetta byggist á því, að Ísland kaupi svokallaðar ETS-einingar til að gera upp skuldbindingar sínar.

Hægt að kaupa ódýrar CER-einingar í stað ETS-eininga

Markaðurinn hefur eftir Halldóri Þorgeirssyni, formanni loftslagsráðs stjórnarráðsins, að þess gerist ekki þörf, í staðinn sé hægt að kaupa svokallaðar CER-einingar, sem kosta aðeins brot af því sem ETS-einingarnar kosta, og lækka þannig syndagjöldin niður í og jafnvel niður fyrir 200 milljónir króna.

Þarf að hafa hraðar hendur

ETS-kerfið er viðskiptamódel Evrópusambandsins með losunarheimildir og „meginstjórntæki ESB á sviði loftslagsmála,“ eins og segir á vef Umhverfisstofnunar. Hver ETS-eining kostar um 25 evrur, en CER-einingar ganga nú kaupum og sölum á 0,29 evrur. Þær megi líka nýta, rétt eins og ETS-einingarnar, til að uppfylla skilyrði Kýótó-samningsins, segir Halldór.

Hann segir jafnframt að hafa þurfi hraðar hendur ef kaupa eigi þær CER-einingar sem til þarf, því gera megi ráð fyrir að verðið á þeim hækki eftir áramótin, þegar útgáfu þeirra lýkur, gildistími Kýótó-samningsins rennur út og Parísarsáttmálinn tekur við.  

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV