Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skoða verði stóraukinn útflutning á óunnum þorski

25.11.2020 - 16:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, skorar á stjórnvöld að skoða af fullum alvöruþunga gríðarlega aukningu á útflutningi á óunnum þorski en útflutningurinn hafi tvöfaldast á árunum 2017 til 2019. Atvinnuveganefnd hafi skoðað þessi mál og athygli veki að komnar séu umboðsskrifstofur á höfuðborgarsvæðinu sem geri út á að kaupa af fiskmörkuðum og flytja til annarra landa þar sem er ríkisstyrkt fiskvinnsla og lægri laun.

„Það er víða pottur brotinn og við teljum í atvinnuveganefnd og erum sammála þar þvert á flokka að þessi mál þurfi að skoðast miklu betur. Við getum ekki, við þessar aðstæður þar sem við erum að reyna að standa vörð um störf og verðmætasköpun, horft á þetta óátalið án þess að bregðast við og stjórnvöld verða að skoða þetta af fullum alvöruþunga,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir á Alþingi í dag.