Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Rotnandi minkahræ ryðja sér leið upp úr grunnum gröfum

25.11.2020 - 03:46
Mynd með færslu
Nú er byrjað að færa minkahræ í tonnavís úr grunnum gröfum sínum í aðrar dýpri í von um að það stöðvi upprisu þeirra Mynd: DR
Vandræði danskra stjórnvalda vegna drápsins á milljónum eldisminka fara enn vaxandi. Aðfaranótt mánudags, nokkrum dögum eftir að síðustu minkunum í þessari fjöldaslátrun var lógað, tók hluti þeirra þúsunda rotnandi minkahræja sem urðuð voru nærri æfingasvæði hersins að ryðja sér leið upp úr jörðinni, knúin áfram af gasinu sem myndast hefur í iðrum þeirra.

Danska ríkisútvarpið greinir frá þessu og hefur fengið það staðfest hjá ríkislögreglunni, sem ber ábyrgð á slátrun minkanna og urðun þeirra. „Í tengslum við rotnunina geta myndast ýmsar gastegundir sem valda því að þetta tútnar allt saman svolítið út, og þá þrýstast hræin í versta falli upp úr jörðinni,“ segir Thomas Kristensen, fjölmiðlafulltrúi ríkislögreglunnar í samtali við DR.

Ekki fyrstu minkahræin til að ryðjast upp á yfirborðið

Þetta gerðist síðast nærri æfingasvæði hersins við Holsterbro á Vestur-Jótlandi, en samkvæmt ríkislögreglunni var það ekki í fyrsta skiptið. „Þetta er náttúrulegt ferli, sem við höfum reynt að hamla gegn með því að moka meiri jarðvegi yfir,“ segir Kristensen.

Hræin voru husluð í eins metra djúpum gryfjum og meðhöndluð með sótthreinsivökva og þakin kalki áður en mokað var yfir þau. Vandinn er sá, að sendinn jarðvegurinn á Vestur-Jótlandi er of léttur og laus í sér til að halda minkahræjunum niðri. Hér eftir verða öll minkahræ urðuð á minnst 2,5 metra dýpi.