Leitar- og björgunarfólk að störfum á Lanzarote í morgun. Mynd: EPA-EFE - EFE
Fjórir hafa fundist látnir eftir að báti flóttamanna og hælisleitenda hvolfdi nærri Kanaríeyjum í gær, skammt norður af eynni Lanzarote. Nokkurra er saknað, en um þrjátíu og fimm voru í bátnum.
Að sögn yfirvalda á Kanaríeyjum er verið að leita að öðrum báti sem hafi verið á sömu leið. Um 18.000 flóttamenn og hælisleitendur hafa komið með bátum frá meginlandi Afríku til Kanaríeyja á þessu ári, tíu sinnum fleiri en allt árið í fyrra.
Stjórnvöld á Spáni áforma að koma upp búðum á Kanaríeyjum fyrir um 7.000 manns, en jafnframt þrýsta á Afríkuríki að reyna að hindra för fólks yfir til eyjanna.