Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hlýhugur almennings til Kvennaathvarfsins skipti sköpum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í dag er alþjóðlegur baráttudagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf, segir aðsókn í Kvennaathvarfið hafa verið mikla það sem af er ári og að fjárstuðningur til samtakanna hafi margfaldast. Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir tilkynningar um kynferðisbrot sveiflast með samkomutakmörkunum.

Fleir börn dvelja í athvarfi en áður

Sigþrúður segir að starfsfólk Kvennaathvarfsins hafi átt annríkt síðan í vor. „Það hefur verið mikil aðsókn og sérstaklega mörg börn dvalið hjá okkur,“ segir hún. Fjöldi kvenna sem leita til þeirra hafi ekki aukist mikið í ár en nú sé mun algengara en áður að börn dvelji í Kvennaathvarfinu í Reykjavík. Það gæti skýrst af aukinni meðvitund um það að heimilisofbeldi sé ofbeldi gegn börnum. 

Mikil eftirspurn eftir ráðgjöf

Eftirspurn eftir ráðgjöf og viðtölum hjá samtökunum hafi aukist greinilega á síðustu mánuðum. Aðspurð hvernig kunni að standa á því segir Sigþrúður að vitundarvakning um áhrif heimilisofbeldis spili sennilega inn í en að einnig megi vera að konur veigri sér síður við því að leita sér aðstoðar í gegnum símtöl og myndsímtöl sem hafi verið í boði í stað viðtala á staðnum síðustu mánuði. 

Aðsókn lítil í samkomubanni

Faraldurinn hafi sett mark sitt á starfsemina en þó hafi gengið vel og aldrei þurft að loka athvörfunum, hvorki í Reykjavík né á Akureyri. „Það sem gerðist í COVID-19 var að aðsókn var óvenjulítil í vor þegar samkomutakmarkanir voru settar á en um leið og slaknaði í maí fylltist allt og hefur verið mjög annríkt síðan, líka í þessum síðustu takmörkunum,“ segir Sigþrúður.  

Hún bendir þó á að aðsókn gefi ekki endilega rétta mynd af því sem er að gerast í samfélaginu. „Það að ofbeldi aukist skilar sér ekki strax inn í aðsóknina,“ segir hún. Athvarfið hafi verið meira í umræðunni síðustu mánuði en áður og það kunni að hafa aukið aðsóknina.

Fjárstuðningur margfaldast

Fjárstuðningur frá almenningi til samtakanna hefur margfaldast á árinu. „Þess vegna höfum við getað haldið sjó, opnað fyrir norðan og opnað timabundin athvörf eftir þörfum og stóraukið þjónustu við börn,“ segir Sigþrúður. 

Sigþrúður segist þakklát fyrir þann mikla stuðning samtökin hafa fengið. Almenningur hafi veitt málaflokknum síaukna athygli. „Það kom þægilega á óvart hvað mér fannst almenningur strax tengja saman COVID-19 og heimilisofbeldi,“ og það hafi endurspeglast í miklum fjárstuðningi.

„Athvarfið hefur upplifað hlýhug og mikið um stuðning og við höfum getað ráðið starfsmann til að sinna börnum,“ segir hún. Fyrst hafi verið stefnt á að starfsmaður til að sinna börnum yrði tilraunaverkefni en nú sé ljóst að hægt verði að halda því áfram. 

12 konur og 11 börn á meðaldegi í fyrra

Aðspurð hversu margar konur dvelja í Kvennaathvarfinu þegar mest lætur segir Sigrþrúður að á meðaldegi í fyrra hafi 12 konur og 11 börn dvalið þar og mest um þrjátíu í heild. „En af því það er neyðarathvarf er það aldrei fullt, alltaf pláss fyrir einn í viðbót,“ segir hún. Fjórtán starfa fyrir samtökin, þrettán í Reykjavík og einn á Akureyri.

Að lokum segir hún vitundina um kynbundið ofbeldi vera að aukast, sérstaklega um heimilisofbeldi. „Umræðan sýnir bæði vilja og aukinn skilning og það sem vantar upp á er aukin athylgi á þá sem beita ofbeldi, bæði stuðning og forvarnir þegar kemur að þeim hópi, til þess að fyrirbyggja ofbeldið,“ segir hún. 

Lægri þröskuldur fyrir tilkynningar kynferðisbrota

Tilkynningar um kynferðisbrot til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru næstum helmingi fleiri í október en í september. Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn á kynferðisafbrotadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að fjöldi tilkynninga sveiflist skýrt með samkomutakmörkunum. „Tilkynningum fækkaði í kjölfar þess að COVID-19 skall á og svo þegar var losað um hömlur fjölgaði þeim aðeins aftur,“ segir hann. Það skýrist sennilega helst af meira samneyti fólks og opnara samfélagi. 

Þá megi einnig vera að færri tilkynningar berist í samkomubanni einfaldlega vegna þess að fólk geymi það að fara og tilkynna brotin. Allavega sé ljóst að þröskuldurinn fyrir tilkynningum hafi lækkað og að það útskýri fjölgun tilkynninga síðustu þrjú til fjögur ár. „Ég vil trúa því að fólk komi frekar en áður,“ segir hann.