Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hádegisfréttir: Flugvirkjar funda hjá ríkissáttasemjara

25.11.2020 - 12:11
Ríkissáttasemjari hefur boðað samninganefndir ríkisins og flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni til samningafundar í dag. Ekkert þyrluútkall hefur verið það sem af er degi, en ljóst er að engin björgunarþyrla verður til taks frá miðnætti, í tvo sólarhringa hið minnsta.

Útlit er fyrir vonskuveður og versnandi færð í kvöld og næstu daga. Verst verður veðrið á Norðurlandi vestra og miðhálendinu. 

Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, fékk ríflega 80 milljónir atkvæða í kosningunum fyrr í þessum mánuði eða fleiri en nokkur annar til þessa. Biden fagnaði því að gefið hefði verið grænt ljós á undirbúning valdaskipta vestanhafs.

Framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins segir ekki hægt að segja til um hvort viðurkenning á bótaskyldu í máli konu, þar sem mistök voru gerð við krabbameinsskimun, gefi fordæmi í málum fleiri kvenna sem telja sig hafa fengið ranga greiningu hjá félaginu. Mismikill fótur sé fyrir málunum.   

Íslensk stjórnvöld þurfa ekki að greiða margra milljarða sekt vegna þess að ekki tókst að standa við skuldbindingar í loftslagsmálum, samkvæmt Kyoto-bókuninni, ef þau fjárfesta í loftslagsverkefnum í þróunarríkjum. Kostnaðurinn við það yrði í kringum tvö hundruð milljónir.

Formaður BHM segir jákvætt að tekjutenging atvinnuleysisbóta hafi verið framlengd. Það sé hins vegar áhyggjuefni að þeim fari fjölgandi sem fullnýti rétt til atvinnuleysisbóta.

Flugfélagið Norlandair hefur áætlunarflug frá Reykjavík til Grænlands næsta sumar, auk þess að fljúga áfram þangað frá Akureyri. Ný 37 sæta flugvél bætist við flugvélakostinn.  

Sara Björk Gunnarsdóttir fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta gerir ráð fyrir krefjandi leik á móti Slóvakíu í undankeppni EM á morgun. Íslenskur sigur skiptir miklu máli.

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV