Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

FÍB: Bifreiðatrygging dýrari hér en á Norðurlöndum

25.11.2020 - 14:03
Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Þór Steindórsson - Aðsend mynd
Bílatryggingar hérlendis eru allt að tvöfalt dýrari á Íslandi en hinum Norðurlöndunum samkvæmt samanburði Félag íslenskra bifreiðaeigenda sem segir engar eðlilegar skýringar á þessum mun. VÍS segir helstu ástæðuna vera ólíkan bótarétt milli landa og að samanburðurinn geti gefið ranga mynd.

Fjallað er um málið í nýjasta tölublaði FÍB blaðsins. Þar kemur fram að þrátt fyrir að bílar séu dýrari í Danmörku og laun svipuð séu iðgjöld bílatrygginga hérlendis 57-97% dýrari en þar. Fyrir tryggingar á bíl borgi danskur tryggingartaki rúmar 97 þúsund krónur á ári en íslenskur 153 til 192 þúsund krónur.

Til að tryggja að samanburðurinn væri sem réttastur voru tekin hliðstæð dæmi um fjölskylduaðstæður og bílategundir milli landa og óskað eftir iðgjaldatilboðum fyrir ábyrgðar- og kaskótryggingar fyrir tvær bílategundir, Volkswagen Golf og Toyota RAV. Hér má sjá samanburðinn á iðgjöldum fyrir tryggingar á Golf.

Iðgjöld í íslenskum krónum

VW Golf eTSI 150

Ábyrgð og kaskó

TM 153.156
Vörður 177.352
VÍS 180.825
Sjóvá 192.668

Svíþjóð/Gautaborg

85.300

Danmörk/Kaupmannahöfn

97.500

Noregur/Osló

105.500

Finnland/Helsinki

112.500

 

Um þennan verðmun segir FÍB:

Einu „eðlilegu“ skýringarnar á þessum mikla verðmun liggja í því að íslensku tryggingafélögin okra á bíleigendum vegna þess að þau komast upp með það. Engin raunveruleg samkeppni ríkir á milli félaganna og hefur aldrei gert. Fjármálaeftirlit Seðlabankans beinlínis hvetur félögin til að hafa sem hæst iðgjöld. Þessum ofteknu iðgjöldum er safnað í tugmilljarða króna sjóði sem tryggingafélögin ávaxta í þágu eigenda sinna.

Erla Tryggvadóttir samskiptastjóri VÍS segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að lög um bótarétt á Norðurlöndum séu mismunandi. Skaðabótalöggjöfin hér á landi skerðir ekki bótaréttinn við örorku undir 15% og ökutækjatryggingar byggi á íslenskum lögum.

Í Danmörku séu til dæmis ekki greiddar bætur fyrir varanlega örorku ef hún er metin lægri en 15%. Í 92% mála hérlendis er um að ræða örorku undir 15% og 75% allra bóta sem tryggingafélögin greiða eru vegna slíkra slysa. Því megi segja að 75% allra slysabóta hér á landi fari til þeirra sem fengu engar slíkar í Danmörku.

Enn fremur segir Erla að hérlendis sé málum háttað svo að lögboðin ökutækjatrygging er slysatrygging ökumanns og eigenda og ábyrgðartrygging. Iðgjaldið skiptist á þann veg að slysatrygging ökumanns og eigenda er um 25% og ábyrgðartrygging 75%. Til samanburðar er einungis ábyrgðartryggingin lögboðin í Danmörku og slysatrygging ökumanns og eigenda valkvæð.

Í könnun FÍB komi ekki fram hvort tekið sé tillit til þessa og sem gæti því gefið skakka mynd af verðmuninum.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV