Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Bjartsýnir kaupahéðnar komu Dow-Jones yfir 30.000 stig

25.11.2020 - 02:38
In this photo provided by the New York Stock Exchange, a board above the trading floor shows the closing number for the Dow Jones Industrial Average, Tuesday, Nov 24, 2020. The DJIA closed above 30,000 points for the first time as progress in the development of coronavirus vaccines and news that the transition of power in the U.S. to President-elect Joe Biden will finally begin kept investors in a buying mood. (Nicole Pereira/New York Stock Exchange via AP)
 Mynd: AP
Viðskipti í kauphöllum Wall Street í New York slógu öll met í gærkvöld þegar Dow-Jones vísitalan fór yfir 30.000 stig, í fyrsta skipti í sögunni. Svo virðist sem vísbendingar gærdagsins um að valdaskiptin í Washington muni að líkindum ganga nokkurn veginn snurðulaust fyrir sig, þrátt fyrir allt sem á undan er gengið, og jákvæðar fréttir af þróun og virkni nokkurra bóluefna gegn COVID-19 hafi blásið kaupsýslumönnum vestra bjartsýni í brjóst.

Svo mikilli bjartsýni, að það þarf að leita aftur til ársins 1980 til að finna jafn mikinn uppgang í bandarískum kauphöllum í nóvembermánuði, samkvæmt bandarískum fjölmiðlum.

Óstaðfestar fréttir af nýjum fjármálaráðherra auka bjartsýni

Auk valdaskiptanna og bóluefnanna er talið að fréttir af væntanlegri skipun Janet Yellen, fyrrverandi seðlabankastjóra, í embætti fjármálaráðherra Biden-stjórnarinnar, hafi haft sitt að segja um handaganginn í verðbréfaöskjunni í gær, þrátt fyrir að þær fréttir hafi ekki verið staðfestar enn.

Boeing og Tesla hækkuðu mikið

Meðal stórfyrirtækja sem högnuðust vel í viðskiptum gærdagsins eru Boeing og Tesla. Hlutabréf í Boeing hækkuðu um 3,3 prósent, og er það einkum rakið til frétta af því, að 737 Max-þota fyrirtækisins hefur ýmist þegar fengið eða mun næsta örugglega fá flugleyfi á ný á öllum helstu flugleiðum heims, eftir ríflega eins og hálfs árs flugbann.

Hlutabréf í Tesla hækkuðu enn meira, eða um 6,4 prósent og er fyrirtækið nú metið á yfir 500 milljarða Bandaríkjadala, meira en Volkswagen, General Motors, Ford, Fiat Chrysler og franski bílarisinn Group PSA (Citroen, Peugeot, Opel, Vauxhall) samanlagt.