Bannað að nota búningsklefa á EM

epa08041367 Evgenija Minevskaja of Germany (2-L) shoots during the IHF Women's World Championship match between Denmark and Germany in Kumamoto, Japan, 03 December 2019.  EPA-EFE/HIROSHI YAMAMURA
 Mynd: EPA

Bannað að nota búningsklefa á EM

25.11.2020 - 10:36
EM kvenna í handbolta hefst í lok næstu viku, 3. desember. Upphaflega áttu Noregur og Danmörk að halda mótið saman en vegna sóttvarnarreglna í Noregi uður Norðmenn að gefa mótið frá sér aðeins 16 dögum áður en EM átti að hefjast. Á mánudag fengu Danir svo grænt ljós á að taka við leikjunum sem áttu að vera í Danmörku.

En Danir munu þó halda Evrópumótið við mjög ströng skilyrði bæði danskra stjórnvalda og EHF, Evrópska handknattleikssambandsins. Allir leikmenn liðanna 16 sem taka þátt í EM verða skimaðir daglega fyrir kórónuveirunni fyrstu dagana, og svo á 72 klukkustunda fresti. Þá þurfa allir leikmenn og starfsmenn liða að vera inni á hóteli öllum stundum milli leikja.

Öll samskipti við umheiminn hvort sem er við fjölskyldur, vini eða blaðamenn verða að fara fram í gegnum fjarfundarbúnað. Í kringum leikina á EM mega liðin svo ekki einu sinni fara inn í búningsklefana í höllunum. Leikmenn þurfa að mæta alveg tilbúnir í keppnishallirnar og eftir leiki fara þeir beint inn í sótthreinsaða rútu og beint aftur upp á hótel þar sem allir þurfa að vera fram að næsta leik.

Brottrekstur ef reglur verða brotnar

Verði einhver leikmaður uppvís um brot á sóttvarnarreglum verður viðkomandi leikmaður rekinn heim af mótinu án nokkurra viðvarana. Allt að 500 mega vera í keppnishöllunum, en þó engir almennir áhorfendur. Aðeins verða liðin og starfsfólk þeirra, starfsfólk í kringum leikina og fjölmiðlafólk leyfilegt. Leikir í A- og B-riðlum EM verða spilaðir í Herning en leikir C- og D-riðla í Kolding. Milliriðlarnir verða spilaðir á sömu stöðum, en undanúrslitin og úrslitin í Herning.

RÚV mun sýna beint frá fjölda leikja á EM kvenna í handbolta. Fyrsta keppnisdaginn, 3. desember verða leikir Rússlands og Spánar annars vegar og hins vegar Noregs og Póllands sýndir á RÚV 2. Hér má sjá þá leiki sem sýndir verða á rásum RÚV frá EM.