Agnes Joy verður framlag Íslands á Óskarnum

Mynd með færslu
 Mynd: Vintage Pictures

Agnes Joy verður framlag Íslands á Óskarnum

25.11.2020 - 18:51

Höfundar

Kvikmyndin Agnes Joy verður framlag Íslands til Óskarsverðlauna 2021. Myndin sópaði að sér verðlaunum á Edduhátíðinni í vor, hún varð hlutskörpust um valið á kvikmynd ársins auk þess sem hún var verðlaunuð fyrir handrit, sem byggir á hugmynd Mikaels Torfasonar.

Mikael er meðframleiðandi myndarinnar ásamt Guðbjörgu Sigurðardóttur en aðalframleiðendur eru Birgitta Björndsdóttir og Gagga Jónsdóttir fyrir Vintage Pictures. Silja Hauksdóttir leikstýrði myndinni og skrifaði handritið ásamt Göggu Jónsdóttur og Jóhönnu Friðriku Sæmundsdótttur.

Katla Margrét Þorgeirsdóttir hlaut Edduna sem leikkona ársins í aðalhlutverki og Björn Hlynur Haraldsson var leikari ársins í aukahlutverki. Sömuleiðis hlaut Gunnar Árnason Edduna fyrir hljóð ársins og þau Lína Thoroddsen og Kristján Loðmfjörð fyrir klippingu ársins.

Dómnefnd Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar völdu Agnes Joy sem framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna, en í henni í sátu fulltrúar helstu fagfélaga íslenska kvikmyndaiðnaðarins, auk fulltrúa kvikmyndahúsa, gagnrýnenda og Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Agnes Joy, sem fjallar um mæðgurnar Rannveigu og Agnesi, var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni Busan í Suður-Kóreu 5. október 2019 og var frumsýnd hérlendis þann 17. október.

Á síðasta ári var kvikmynd Hlyns Pálmasonar Hvítur, hvítur dagur framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna en varð ekki meðal þeirra sem kepptu um verðlaun á lokahátíðinni.

Tvær íslenskar kvikmyndir hafa náð það langt, stuttmynd Rúnars Rúnarssonar Síðasti bærinn árið 2006 og Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson árið 1992.

Það var 1981 sem Ísland sendi fyrst kvikmynd til Óskarsverðlaunanna, myndina Land og syni í leikstjórn Ágústs Guðmundssonar, sem byggði á samnefndri skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar frá 1963.

Óskarsverðlaunahátíðin, sú 93. í röðinni, verður haldin þann 25.apríl 2021, en tilnefningar til verðlaunanna verða kynntar 15. mars. Þess má geta að Agnes Joy er á dagskrá sjónvarpsins á jóladag kl. 21:10.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Agnes Joy og Hvítur, hvítur dagur sigursælust á Eddunni

Kvikmyndir

Agnes Joy eina íslenska myndin á topp 20

Kvikmyndir

Ekki snöggan blett að finna á Agnesi Joy