Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vilja dómsúrskurð til að hreinsa lóð bílapartasölu

24.11.2020 - 19:56
Svalbarðsstrandarhreppur hefur farið fram á dómsúrskurð til að hefja hreinsun með valdboði á lóð bílapartasölunnar Auto við Svalbarðsströnd. Eigandi fyrirtækisins segir engar líkur á að til þess komi. Hreinsun sé langt komin.

„Mengandi efni hérna“

„Það eru mengandi efni hérna, það er bensín á bílum í einhverju mæli og olíur, rafgeymar sem sagt spilliefni og síðan er verklagið þannig að það er ákveðin hætta á að svona hlutir hreinlega hrynji í vindi og einhverjir gætu orði fyrir slysi,“ segir Alfred Schiöth, heilbrigðisfulltrúi á Akureyri. 

Hafa ítrekað gert kröfur um tiltekt

Skammt austan við Akureyri hefur Auto ehf. starfrækt bílapartasölu um árabil. Starfsleyfi fyrirtækisins rann út í vor og hefur það ekki verið endurnýjað. 

„Heilbrigðisfulltrúi hefur gert ítrekaðar kröfur á fyrirtækið um að taka til á lóð, einfaldlega að fjarlægja mikinn fjölda af bílhræjum og lausadóti og drasli. Það var gerð tilraun til að hreinsa hérna seint í sumar en því miður þá brást fulltrúi fyrirtækisins á þann hátt að setja upp keðju á heimreiðina og meina okkur aðgang og það er að sjálfsögðu ekki hægt að brjótast inná lóðina í óþökk lóðarhafa eða eiganda. Þannig að það er verið að sækja dómsúrskurð til að gera þetta með valdboði,“ segir Alfreð.

Alvarlegt slys á svæðinu í sumar

Um miðjan síðasta mánuð kviknaði í bíl á lóð fyrirtækisins. Slökkviliði tókst að slökkva eldinn áður en hann barst í aðra bíla.

Sjá einnig: Eldur í mannlausum bíl á Svalbarðsströnd

„Þetta slys sem varð hérna í sumar þegar það kviknaði í bíl það var bara mjög alvarlegt og ef eldurinn hefði læst sér inni þetta dót hérna, það er gríðarlegur eldsmatur í dekkjunum þá hefði það sjálfsagt orðið illviðráðanlegt.“

Segja hreinsun langt komna

Björg Erlingsdóttir sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps staðfestir í samtali við fréttastofu að beiðni um dómsúrskurð hafi verið send. Nú bíði sveitarfélagið eftir úrskurði áður en farið verði í hreinsun. Eigendur fyrirtækisins segja engar líkur á því að grípa þurfi til hreinsunar með valdboði á lóðinni. Þeir hafi fundað með sveitarstjórn og heilbrigðisfulltrúa fyrr í sumar og tiltekt hafist þegar í stað. Hún sé vel á veg komin. 

default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Svæðið er skammt austan við Akureyri