Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þarf ekki að svara fyrir banaslys vegna friðhelgi

24.11.2020 - 22:20
epa06948547 Police and emergency services respond to a incident outside Houses of Parliament, Central London, Britain, 14 August 2018. Reports suggest a car hit the barriers outside the building causing pedestrians to be injured  EPA-EFE/WILL OLIVER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Eiginkona bandarísks diplómata í Bretlandi, sem varð völd að dauða pilts í bílslysi, þarf ekki að svara til saka eftir að dómstóll úrskurðaði í dag að hún hefði notið friðhelgi þegar slysið varð. Málið kom af stað milliríkjadeilu.

Eiginmaður Anne Sacoolas starfaði á vegum bandarísku utanríkisþjónustunnar í Bretlandi þegar hún varð valdur af bílslysi síðsumars í fyrra þar sem hinn nítján ára Harry Dunn lést. Sacoolas sneri heim til Bandaríkjanna eftir slysið og fór fram á undanþágu frá rannsókn málsins vegna stöðu sinnar sem maki diplómata, nokkuð sem bresk stjórnvöld lögðust gegn.

„Ég tel ekki rétt að nýta friðhelgi diplómata með þessum hætti,“ sagði Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, í október í fyrra þegar Sacoolas bar fyrir sig friðhelgi.

Þrátt fyrir þessa afstöðu þurftu foreldrar Dunn að höfða mál gegn breska utanríkisráðuneytinu í von um að Sacoolas yrði framseld til Bretlands, en hæstiréttur staðfesti friðhelgi hennar í dag.

Fagnar niðurstöðunni en styður foreldrana

„Við höfum gert allt rétt og í góðri trú og eins og dómstóllinn komst að í dag höfum við stutt lögreglurannsókn á málinu. Öllum aðdróttunum um annað var vísað frá á skýran hátt. En við höfum frá upphafi tekið skýrt fram að við erum á þeirra bandi,“ sagði Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands í dag, og átti þar við foreldra Harry Dunn, þau Tim Dunn og Charlotte Charles.

„Þetta er enn ein hindrunin sem lögð er fyrir okkur. Við höfum rekist á þær margar svo við höldum bara áfram,“ sögðu þau eftir úrskurðinn í dag.

Málið varð til þess að reglum um friðhelgi breskra og bandarískra diplómata var breytt. Breytingarnar eiga að koma í veg fyrir að mál af þessum toga endurtaki sig. Foreldrar Dunn halda hins vegar áfram sinni baráttu.

„Hún naut ekki friðhelgi á þeim tíma sem hún varð Harry að bana. Við og þeir sem styðja Harry vinnum þetta mál, hversu langan tíma sem það tekur.“