
Spítalinn vissi af gríðarlegum uppsöfnuðum halla
Málefni Landspítalans og fjármál tengd rekstrinum brunnu á þingmönnum við upphaf þingfundar á Alþingi í dag og var spurningum beint til heilbrigðisráðherra. Eins og fram hefur komið í fréttum telur spítalinn að hann vanti 4,3 milljarða til viðbótar við það fjármagn sem honum er skammtað í fjárlagafrumvarpinu til rekstursins næsta árs.
Fundað verður í heilbrigðisráðuneytinu á næstu dögum með fulltrúum spítalans til að fara yfir aðgerðir til að koma til móts við hallann. Fjárlög eru enn til meðferðar í fjárlaganefnd Alþingis og var annarri umræðu sem átti að fara fram í dag frestað fram í desember. Þess má geta að fulltrúar Landspítalans koma fyrir nefndina á morgun.
Þingmaður Pírata segir spítalann vanfjármagnaðan um marga milljarða og gagnrýndi stjórnvöld harðlega á Alþingi í dag.
„Ég vil spyrja hæstvirtan ráðherra af hverju burðarstólpi heilbrigðiskerfisins – þar sem að starfsfólk hefur þurft að starfa undir ómanneskjulegu álagi undanfarin ár – sé vanfjármagnaður um marga milljarða?“ spurði Sara Elísa Þórðardóttir á Alþingi í dag.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var til svara: „Þá er það svo að því miður að Landspítalinn veit og vissi af þessum halla og vissi af því hvernig hann liti út en aðhaldskrafa stjórnvalda er 0,5 prósent á ári hverju á heilbrigðisþjónustu.“