Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skerðing á þjónustu við sjúklinga kemur ekki til greina

24.11.2020 - 15:06
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Formaður Samfylkingarinnar spurði heilbrigðisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma hvort ekki væri hægt að falla frá aðhaldskröfu á Landspítala og að hann þyrfti að vinna upp uppsafnaðan halla á næstu þremur árum. Heilbrigðisráðherra segir að skerðing á þjónustu við sjúklinga komi ekki til greina.

Greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að Landspítalinn standi frammi fyrir 400 milljóna aðhaldskröfu í fjárlagafrumvarpi næsta árs til viðbótar við uppsafnaðan halla spítalans um áramót.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði ráðherra út í málið í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Hann sagði stjórnendur spítalans sjá fram á að fresta húsnæðisframkvæmdum, skerða þjónustu kvenlækningadeildar, þétta vaktaskipti og seinka sumarráðningum þar sem fjármunir væru of naumt skammtaðir. „Er virkilega ekki hægt að falla frá kröfum, aðhaldskröfum í fjárlögum og þeirri kröfu að að Landspítalinn þurfi að vinna uppsafnaðan halla á næstu þremur árum og tryggja þannig spítalanum viðunandi rekstrarskilyrði á þessum skrýtnu tímum?“

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, sagðist reikna með að funda með forsvarsmönnum spítalans á næstu dögum. Spítalinn hefði sjálfur lagt til ákveðnar aðgerðir til að koma til móts við hallarekstur en skerðing á þjónustu við sjúklinga kæmi ekki til álita að hennar mati.  

Hún sagði það líka hafa legið fyrir frá upphafi COVID-19 faraldursins að spítalinn fengi allan viðbótarkostnað bættan.