
Ótti við COVID-19 minnkar en efnahagsáhyggjur aukast
Könnunin var gerð yfir tímabilið 12. nóvember- 21. nóvember. Úrtak var 1.629 manns 18 ára og eldri, 900 tóku þátt.
Það hefur fjölgað í hópi þeirra sem almennt telja aðeins of lítið gert úr heilsufarslegri hættu sem stafar af COVID-19 miðað við í fyrstu bylgju faraldursins en einnig fjölgar lítillega í hópi þeirra sem telja aðeins of mikið gert út henni.
Fækkun má greina hjá þeim sem viðhafa breyttar venjur vegna faraldursins í takt við fækkun smita í vor sem og nú.
Traust mikið en fer minnkandi
Traust til heilbrigðisyfirvalda og almannavarna til að takast á við COVID faraldurinn hefur minnkað, mest mældist það 15. til 21. apríl þegar 91,8% svarenda sögðust treysta þeim fullkomlega eða mjög vel, nú eru þau 79,7%.
Þeir sem segjast treysta ríkisstjórninni fullkomlega, mjög vel eða frekar vel til að takast á við efnahagsleg áhrif COVID faraldursins eru nú samtals 67,2 % en mest mældist traust í upphafi faraldurs þegar 74,8% svöruðu þannig 20. - 26. mars.
Efnahagsáhyggjur aukast
36,1% telja ríkisstjórnina gera aðeins eða allt of lítið til að fyrirbyggja eða bregðast við neikvæðum efnahagslegum áhrifum vegna COVID en metfjöldi var á þeirri skoðun 21. - 27. október, 44%, frá upphafi faraldurs.
76,7% hafa nú miklar eða mjög miklar áhyggjur af efnahagslegum áhrifum COVID-19. Það er aukning frá síðustu mælingu en efnahagslegar áhyggjur hafa mælst nokkuð viðvarandi. Mest um 80% svarenda sögðust hafa miklar eða mjög miklar efnahagslegar áhyggjur í þjóðarpúlsi í mars, maí, október og byrjun nóvember.