Olivier Giroud kom Chelsea í 16-liða úrslitin

epa08839776 Olivier Giroud (R) of Chelsea celebrates with teammates after scoring the 1-2 lead during the UEFA Champions League group E soccer match between Stade Rennes and Chelsea FC in Rennes, France, 24 November 2020.  EPA-EFE/Eddy Lemaistre
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Olivier Giroud kom Chelsea í 16-liða úrslitin

24.11.2020 - 19:59
Lundúnarlið Chelsea heimsótti franska liðið Rennes í fjórðu umferð Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld. Frakkinn Olivier Giroud reyndist hetja Chelsea.

Chelsea og Sevilla voru jöfn að stigum í E-riðlinum eftir þrjá leiki, bæði lið með sjö stig, en Rennes og rússneska liðið Krasnodar voru með eitt stig hvort. Chelsea og Sevilla gátu því bæði tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar með sigri í kvöld. 

Callum Hudson-Odoi kom Chelsea í forystuna gegn Rennes á 22. mínútu og þannig var staðan enn þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. En þá jafnaði Sehrou Guirassy metin fyrir Rennes og staðan orðin 1-1. Olivier Giroud, sem komið hafði inn á á 69. mínútu, reyndist þó hetja Chelsea en í uppbótartíma tryggði hann sínum mönnum 2-1 sigur og skaut Chelsea um leið áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar. 

Í hinum leik E-riðilsins reyndist Munir El Haddadi hetja Sevilla en hann tryggði sínum mönnum sigurinn gegn Krasnodar í blálokin. Ivan Rakitic kom Sevilla yfir snemma leiks en Wanderson jafnaði fyrir Krasnodar á 56. mínútu. Það var svo El Haddadi sem gerði útslagið á fimmtu mínútu uppbótartímans og er Sevilla komið áfram í 16-liða úrslitin líkt og Chelsea.