Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Norskur gróði á tímum farsóttar

24.11.2020 - 18:52
Mynd: Colin Moldenhauer / Unsplash
Norska ríkið græðir á kófinu. Og það sem meira er: Það er hagvöxtur í landinu þannig að allt sem tapaðist með víðtækum lokunum í atvinnulífinu í vor er komið til baka. Norðmenn hafa smátt og smátt lært að lifa með smitinu og græða í efnahagskófinu

Takmarkanir á atvinnu, þjónustu og útiveru fólks leiddu til hruns uppá 10% á skömmum tíma í apríl og maí í vor. Einkaneyslan féll um 15% og þjóðartekjur drógust saman um 6% á vormánuðum. Þetta leit illa út og spár voru svartar ef svo héldi fram það sem eftir væri ársins.

Viðsnúningur í annari bylgju þó göturnar séu tómar

En svo hefur dæmið snúist við í haust og það þótt önnur bylgjan af kórónasmiti hafi verið áþekk fyrri bylgjunni í vor. Að vísu hafa takmarkanir á ferðum og atvinnustarfsemi ekki verið eins miklar og í vor – en samt finnur fólk sem fyrr mikið fyrir að yfirvöld beita öllum ráðum til að takmarka samkomur og umsvif meðan smitið er er ekki að fullu hamið.

Þrátt fyrir það hafa allar hagtölur snúist við. Tap á þjóðarbúskapnum hefur snúist í hagnað og einkaneysla er að verða alveg sú sama og var í fyrra. Þó er daglegt líf fólks mjög breytt. Miðborg Óslóar er nánast mannlaus og mælingar á ferðavenjum sýna, að í staðinn fyrir búðarráp, ráfar fólk nú um friðalandið norðan við höfuðborgina. Á flestum veitingastöðum er bara myrkur í gluggum og glösin tóm og það er búið loka meginhluta flugstöðvarinnar á Gardermoen.

Nota gróðann til að lækka skatta

Samt standa flokkarnir í ríkisstjórn í stappi við að koma saman nýjum fjárlögum vegna þess að tekjur ríkissjóðs hafa aukist í haust. Lagt er til að nota minna af olíupeningum en í góðærinu í fyrra. Spara meira úr því að peningarnir streyma nú í ríkiskassann. Þá er deilt um hvort ekki eigi að nota gróðann í kófinu til að lækka skatta, sérstaklega eignaskattinn.

En auðvitað er spurt af hverju ríkið sitji uppi með auknar tekjur og af hverju hjól atvinnulífsins snúist hraðar þótt sóttvarnarliðið reyni allt hvað af tekur að standa á bremsunni og heimtar lokanir og takmarkanir.

Norðmenn eyða og spenna heima við

Mikilvægasta ástæðan er að einkaneysla, sem áður beindist til útlanda, er nú bundin við heimamarkað. Það eru nánast enga utanlandsferðir og kaupmenn nærri sænsku landamærunum dásama nú hlutinn sinn. Fólk kemst ekki til Svíþjóðar í innkaupaferðir og það eykur innanlandsveltuna í Noregi um marga milljaða.

Að auki eru möguleikar á fjárfestingum í húsnæði og annarri eyðslu við Miðjarðarhafið úr sögunni í bili að minnsta kosti. Í stað þess að kaupa íbúðir til vetrardvalar í sólarlöndum eykst eftirspurnin eftir bústöðum á fjöllum heima í Noregi. Verktakar segist ekki ráða lengur við eftirspurnina. Það er grafið og byggt á fjöllum nótt sem nýtan dag og reyndar er vöxtur í allri byggingastarfsemi í landinu.

Útlendingar sjást varla

En erlendir ferðamenn eru sjaldséðir og hafa varla sést frá því í eftir jólin. Fyrir kófið var ferðajöfnuður Norðmanna gagnvart útlöndum nærri því í núlli. Það er að norsk ferðafólk eyddu álíka miklu í útlöndum og útlendingar eyddu í Noregi. Þetta er mjög ólíkt því sem var á Íslandi.

Peningarnir sem áður fóru með ferðafólki til útlanda eru nú í innanlandsneyslu. Ríkissjóður nýtur þessa í að tekjur af áfengisölu eru miklu meira en áður og neysluskattar almennt. Fólkið kaupir húsgögn og jafnvel hlutabréf til að kaupa eitthvað.

Gróðanum misskipt

En þetta þýðir að peninganir, sem áður fóru í ferðamennsku utanlands, fara ekki í ferðalög innanlands. Ferðaþjónustan tapar stórlega. Þannig er ljóst að ávöxtum þessa góðæris er misskipt. Veitingahúsin fá enga gesti og hótelherbergin eru flest tóm. Flugfélagið Norwegian rambar á barmi gjaldþrots og atvinnuleysi hefur aukist verulega í þeim greinum sem sæta lokunum.

Ástandið er því afbrigðilegt. Enginn veit hvað gerist þegar hagkerfið kemur út úr efnahagskófinu og fólk tekur að flykkjast bólusett til útlanda; hættir að kaupa húsgöng og fjallakofa en tekur sér stöðu í biðröðinni í sænska ríkinu í Straumstað? Þá þarf að vinda ofan af kórónuhagkerfi